7.7.2019 10:44

Sykurskattur í formannskjöri

Skoðanir DT um sykurskattinn eiga erindi hingað þegar enn á ný koma fram hugmyndir um slíkan skatt til að stýra neyslu landsmanna.

Formannskjörið innan breska Íhaldsflokksins snýst um þá Boris Johnson og Jeremy Hunt. Flokksmenn verða að gera upp á milli þeirra. Gamlir forystumenn í flokknum taka afstöðu, Ian Duncan Smith styður Johnson en William Hague styður Hunt svo að tveir fyrrverandi flokksformenn séu nefndir til sögunnar.

Á dögunum tók The Daily Telegraph (DT) Boris Johnson til bæna í leiðara eftir að hann lýsti þeirri skoðun að endurmeta ætti ákvörðun George Osbornes, flokksbróður hans og fjármálaráðherra árið 2016, um að leggja sykurskatt á gosdrykki í Bretlandi.

Rannsóknir í Bretlandi sýna að offita er nú meiri krabbameinsvaldur en reykingar. Segir DT að skoða verði sykurskattinn í þessu ljósi. Vissulega kunni að vera rétt hjá Johnson að skatturinn vegi þyngra fyrir þá sem búi við bágan fjárhag en hina, hann sé því ósanngjarn í þeirra garð. Hins vegar megi draga í efa hvort þetta séu nógu góð rök til að afnema skattinn. Líta verði til þeirrar staðreyndar líka að óvenjulega hátt hlutfall fátæks fólks þjáist af sjúkdómum sem rekja megi til ofþyngdar – ekki aðeins krabbameini heldur einnig sykursýki og hjartasjúkdómum.

Ireland-sugar-tax-comes-into-effect_wrbm_largeSkoðanir DT um sykurskattinn eiga erindi hingað þegar enn á ný koma fram hugmyndir um slíkan skatt til að stýra neyslu landsmanna. Staðreynd sé að framleiðendur setji of mikinn sykur í alltof margan varning. Menn geti fjargviðrast yfir of miklum sköttum og of mikilli opinberri umhyggjusemi en verði skatturinn til að breyta afstöðu framleiðenda til sykurs sé hann til góðs.

Blaðið minnir á að opinber umhyggjusemi birtist ekki aðeins í baráttu gegn sykri heldur einnig í hvatningarorðum um að borða ferskan mat, setjast til borðs, stunda meiri líkamsrækt og fara almennt betur með sig. Því miður sé það þó svo að þeir sem ættu að taka þetta til sín láti það flestir sem vind um eyru þjóta en bregðist fljótt við verðhækkunum.

Í blaðinu er minnt á álagið á heilbrigðiskerfið vegna þyngdar-sjúkdóma og þess vegna sé það mikill hagur fyrir ríki og skattgreiðendur að takist að minnka það, einkum ef mörg börn eru úrskurðuð sem of feit. Fáir leggi til að háir skattar á tóbak séu lækkaðir.

Undir lok leiðarans segir DT að áhrif sykurskattsins hafi þegar birst í minna sykurmagni í gosdrykkjum. Blaðið segir loks óhjákvæmilegt að staldra við annan þátt þessa máls, það er fullyrðingar um að það sé á einhvern hátt lofsvert að vera of feitur. „Fitufordómar“ sé nýtt bannorð sem leiði til þess að aðeins almenn ráð séu gefin til fólks um að borða hollustufæðu og hreyfa sig meira í stað þess að veita einstaklingsbundin ráð um láta ekki allt eftir sér og stunda ofát.