13.9.2020 10:43

Svíþjóð: Baráttan við glæpagengin

Fyrsta skrefið gegn vandamáli er að viðurkenna tilvist þess. Undarlegt er hve lengi sænskir ráðamenn hafa leitast við að sópa þessum hluta útlendingamálanna undir teppið.

Í Svíþjóð er nú talað opinberlega um tengsl milli skipulagðrar glæpastarfsemi og innflytjenda. Formlega var þögnin rofin á æsta vettvangi stjórnmálanna í vikunni þegar jafnaðarmaðurinn Stefan Löfven forsætisráðherra lýsti skoðun sinni í þessa veru í sjónvarpsviðtali.

Þá er rifjað að upp að 24. ágúst 2020 lýsti Ulf Kristersson, formaður Moderatarna (mið-hægriflokks) í stjórnarandstöðu, ofbeldisfullum glæpagengjum sem „innlendum hryðjuverkamönnum Svíþjóðar“. Þessi orð lét hann falla þegar hann ræddi um skotbardaga og sprengjuárásir sem verða sífellt algengari í Svíþjóð.

Í grein eftir Charlie Sulocki, kennara við sænska Försvarshögsskolan, sem birtist í Svenska dagbladet 9. september segir að daginn eftir að Kristersson flutti ræðu sína hafi glæpamenn í Gautaborg gert sitt til að staðfesta réttmæti orða hans með því að reisa vegatálma svo að þeir gætu haft stjórn á umferð inn á ákveðið svæði.

Álitsgjafar í fjölmiðlum hika ekki við að líkja ástandinu Í Svíþjóð við það sem gerist í Líbanon og á öðrum ófriðarsvæðum þar glæpamenn og pólitískir hópar reyna að sölsa undir landsvæði til að treysta völd sín og áhrif.

63bb650d31d87d9ea7d7f2ab6014be845658a07386638c71241207eb96bb2116Eftir sprengjuárás í íbúðarhverfi í Svíþjóð.

Charlie Sulocki var á sínum tíma í breska hernum og gegndi herþjónustu sem foringi á Norður-Írlandi þegar herinn tókst á við IRA-lýðveldisherinn á sínum tíma. Í grein sinni bendir hann Svíum á að þeir geti mikið lært af reynslu breskra stjórnvalda í átökunum við IRA vilji sænsk yfirvöld brjóta skipulögðu glæpahringina í landinu á bak aftur. Aðstoðar-ríkislögreglustjóri Svíþjóðar sagði 5. september að 40 „glæpafjölskyldur“ hefðu búið um sig í Svíþjóð. Fyrir þeim vekti að græða og sölsa undir sig völd. Þær hefðu engan áhuga á að laga sig að sænsku þjóðfélagi.

Oft er sagt að glæpamenn starfi í undirheimum en eftir því sem völd þeirra og máttur eykst verður keppnin milli þeirra sýnilegri og blóðugri í átökum á götum úti og tilraunum til að leggja undir sig ákveðin svæði eða borgarhluta.

Sulocki telur að venjulegar lögregluaðgerðir dugi ekki til að friða Svíþjóð og skapa almennum borgurum öryggið sem ríkisvaldið á að veita þeim heldur verði að breyta um stefnu með forvirkum lögreglustörfum og efnahagslegum aðgerðum. Bretar hafi meðal annars stuðst við ónafngreind vitni, umfangsmiklar hleranir og eftirlitsmyndatökur. Hann minnir á að hér sé um langvinnt verkefni að ræða. Það tók 30 ár að brjóta írska lýðveldisherinn á bak aftur þótt aðains 200 manna kjarni stjórnaði aðgerðum hans.

Á þessari stundu er of snemmt að segja til hvaða ráða sænsk stjórnvöld grípi nú eftir að stjórnmálamenn skilgreina glæpastarfsemi sem hluta af útlendinga- og innflytjendamálum. Fyrsta skrefið gegn vandamáli er að viðurkenna tilvist þess. Undarlegt er hve lengi sænskir ráðamenn hafa leitast við að sópa þessum hluta útlendingamálanna undir teppið. Nú kemur í ljós hvernig staðið verður að „tiltektinni“ með vísan til nýrra pólitískra fyrirmæla.