25.6.2023 11:43

Svikalogn í Rússlandi

Pútín og félagar héldu völdum vegna samkomulagsins. Enginn veit hvað Prígósjín fékk í sinn hlut, annað en að verða útlægur í Belarús að sögn Kremlverja.

Undarlegt ástand er í Rússlandi. Hér var notað orðið borgarastríð í gær til að lýsa því sem við blasti fyrir einum sólarhring, að morgni laugardagsins 24. júní, þegar Jegeveníj Prígósjín og Wagner-málaliðar hans höfðu lagt undir sig suðurherstjórn Rússlands í borginni Rostov við Don.

Þeir héldu síðan eftir rússneskri hraðbraut, M4, í norður til Moskvu og voru í 200 km fjarlægð frá borginni þegar Prígósjín gaf liði sínu fyrirmæli um að snúa til baka og halda til búða sinna bæði af hraðbrautinni og frá Rostov við Don. Um það bil sólarhring eftir að Prígósjín sagði rússneska varnarmálaráðuneytinu stríð á hendur féll allt í ljúfa löð að nýju. Sáttin minnir á svikalogn.

Vladimír Pútin forseti sakaði gamlan vin sinn, Prígósjín, um landráð, hann ræki rýting í bak þjóðar sinnar. Borgarstjórinn í Moskvu sagði fólki að halda sig heima, vegatálmar voru settir upp í kringum höfuðborgina og vinnuvélar sendar á vettvang svo að rjúfa mætti vegi með skurðum til að hefta framrás óvinarins.

Um klukkan 17.15 að íslenskum tíma (20.15 í Moskvu) laugardaginn 24. júní var tilkynnt að Alexander Lúkasjenkó, einræðisherra í Belarús, hefði, með samþykki Pútíns, samið við Prígósjín um að hætta aðgerð sinni og senda málaliða sína til herbúða sinna. Prígósjín yrði ekki refsað í Rússlandi heldur sendur í útlegð til Belarús.

4d9a12c5-e7e6-41dd-94f2-3b816142a6cbJevgeníj Prígósjín glotti þegar hann hélt á brott frá Rostov við Don að kvöldi laugardags 24. júní.

Fyrirmæli Prígósjíns um heimför málaliða hans heyrðust á samfélagsmiðlum. Nú rúmum hálfum sólarhring síðar hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá Prígósjín. Hann var þó áður sólarhringum saman gjammandi á samfélagsmiðlum annaðhvort í mynd og hljóði eða aðeins í hljóði. BBC segir að aðeins einn maður, Dmitríj Peskov, blaðafulltrúi Pútíns og Kremlverja, sé heimildarmaður fyrir því að Prígósjín fari til Belarús.

Pútín og félagar héldu völdum vegna samkomulagsins. Enginn veit hvað Prígósjín fékk í sinn hlut, annað en að verða útlægur í Belarús að sögn Kremlverja. Hann sást síðast brosandi í bíl á leið frá Rostov við Don að kvöldi laugardagsins 24. júní. Mannfjöldi fagnaði honum.

Örlög Prígósjíns eru óljós en víst er að hann sleppur vel, sé að marka Peskov, eftir að Pútín sakaði hann og málaliða hans um landráð og hnífstungu í bak rússnesku þjóðarinnar.

Fréttaskýrendur og sérfræðingar í málefnum Rússlands leggja nú mat á þessa furðulegu atburðarás. Radek Sikorski, fyrrv. utanríkisráðherra Póllands, segir Pútín bæði hafa skaðast og hagnast á því sem gerðist. Traust í garð forsetans minnki við að óvinveittir málaliðar gátu andspyrnulaust lagt undir sig rússnesku herstjórnina yfir innrásinni í Úkraínu og síðan haldið óáreittir mörg hundruð kílómetra í áttina að Moskvu. Vegna atburðanna styrki forsetinn hins vegar tök sín til að grípa til hreinsana í æðsta stjórnkerfi Rússlands af meiri grimmd en áður.

Ástandið er ef til vill svikalogn. Uppgjörið mikla í Kreml og við Pútín sé rétt að hefjast. Að Pútín sé óskaddaður eftir niðurlæginguna er óhugsandi. Að málaliðaforingi 25.000 manna bardagasveitar gangi laus sakaður um landráð og vopnaða uppreisn er aðeins dagleg áminning um máttleysi stjórnarherra sem hafa stofnað til blóðbaðs með misheppnuðu stríði.