23.11.2018 10:28

Svartur föstudagur íslenskunnar

Óljóst er hins vegar hverra hagsmuna þeir gæta sem gera ekki kröfu um að notuð sé íslenska við kynningu á útsölunum.

Í umsögn í Morgunblaðinu í dag (23. nóvember) um bókina Hinir útvöldu eftir Gunnar Þór Bjarnason minni ég á að í greinargerð íslensku fjórmenninganna sem sömdu við Dani sumarið 1918 um fullveldið hafi rökin ekki aðeins verið reist á því að Ísland væri í sambandi við Danmörk um konung einan heldur hefði íslenska þjóðin ein germanskra þjóða varðveitt hina fornu tungu „er um öll Norðurlönd gekk fyrir 900-1000 árum svo lítið breytta að hver íslenskur maður skilur enn í dag og getur hagnýtt sér til hlítar bókmenntafjársjóði hinnar fornu menningar vorrar og annarra Norðurlandaþjóða. Með tungunni hefur sérstakt þjóðerni, sérstakir siðir og sérstök menning varðveist.... Þessi atriði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis.“

Fyllsta ástæða er til að rifja þetta upp einmitt í dag þegar á mörgum síðum Morgunblaðsins birtast risastórar fyrirsagnir á ensku: Black Friday. Þær minna á að varðstaða blaðsins um að allt efni þess sé jafnan á íslensku hefur linast frá því sem áður var. Fyrirsagnirnar minna einnig á bandarísk áhrif á menningar- og viðskiptalíf um heim allan. Á því sviði hefur slagorð Trumps America first  sérstakan sess.

Black-friday-shopping-920x518Þetta er föstudagurinn eftir þakkargjörðardaginn í Bandaríkjunum og kaupsýslumenn þar lækka þá verðið á vörum sem ekki gengu út í gjafaflóðinu fyrir þann dag. Þetta gera þeir til að rýma fyrir jólavarningnum. Hvers vegna þessi útsöluþörf hefur skapast hér má líklega rekja til rýmingarþarfar fyrir jólin. Óljóst er hins vegar hverra hagsmuna þeir gæta sem gera ekki kröfu um að notuð sé íslenska við kynningu á útsölunum.

Varðstaðan um tunguna er ríkur þáttur í varðveislu fullveldisins, líklega mikilvægari þegar upp er staðið en deilur um hvort þessi eða hin tilskipunin vegna aðildar að EES-samningum fellur innan ramma stjórnarskrárinnar eða ekki. Lögfræðilegar þrætur um það efni eru eins og hver önnur hugarleikfimi.

Nú er hart sótt að EES-samningnum vegna 3. orkupakkans sem bíður afgreiðslu hér eftir að alþingi og ríkisstjórn gáfu árið 2014 grænt ljós á hann sem EES-mál. Andstæðingar orkupakkans fundu upp orðskrípið „landsreglari“ algjörlega að ástæðulausu. Berjast þeir við þennan „landsreglara“ í vindmyllubaráttu sinni. Nýyrðasmíði orkupakkaóvina ber ekki vott um mikla ást á þjóðtungunni þótt þeir berji sér á brjóst sem sérstakir fullveldissinnar, meiri en allir aðrir samanlagt.