30.7.2020 9:26

Svæðisbundið norrænt fullveldi

Um leið og ég þakka Þorsteini góð orð tel ég að það yrði ekki endilega norrænu samstarfi til framdráttar að öll ríkin fimm yrðu aðilar að ESB annars vegar og NATO hins vegar.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, fer vinsamlegum orðum um nýlega skýrslu mína um norrænt samstarf í Fréttablaðinu í morgun (30. júlí). Hann leggur út af henni og segir meðal annars:

„Það metnaðarfulla fjölþjóðasamstarf, sem hófst á norrænum vettvangi, hefur smám saman þróast yfir í evrópskt samstarf. Höfuðsvið þeirrar samvinnu eru þau sömu og áður. En í samræmi við breytta tíma og nýjar áskoranir eru verkefnin fjölþættari.

Helstu málum, sem Norðurlönd þurfa að vinna með öðrum þjóðum, er nú ráðið til lykta innan Evrópusambandsins og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, sem í raun eru sín hvor hliðin á sama peningnum.

Þrjú Norðurlanda eiga nú fulla aðild að Evrópusambandinu en önnur tvö að kjarna þess, innri markaðnum. Síðan eiga þrjú landanna fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu en önnur tvö, sem lengi voru hlutlaus, eiga nú náið og virkt samstarf við bandalagið.

Viðbótarskrefin til fullrar aðildar eru tiltölulega lítil. Þau eru sannarlega pólitískt viðkvæm í hverju landi. En það breytir ekki hinu að þau skref, sem þegar hafa verið stigin, voru stærri en það sem eftir er í báðum tilvikum.

Þegar litið er á þau verkefni, sem tilgreind eru í skýrslu Björns Bjarnasonar, er engum vafa undirorpið að samstaða Norðurlanda um mörg þeirra yrði sterkari og markvissari, ef löndin ættu öll sæti við borðið í þeim tveimur fjölþjóðasamtökum, sem úrslitum ráða um þau.

Vilji menn ríkan metnað í norrænt samstarf, gæti næsta skref verið umræða um möguleika á fullri aðild allra landanna að þessum tveimur höfuð fjölþjóðasamtökum Evrópuríkja.“

Um leið og ég þakka Þorsteini góð orð tel ég að það yrði ekki endilega norrænu samstarfi til framdráttar að öll ríkin fimm yrðu aðilar að ESB annars vegar og NATO hins vegar. Staðan eins og hún er núna skapar þeim einmitt sameiginlegt, alþjóðlegt svæðisbundið fullveldi. Að fórna því er ekki til góðs.

The-nordic-flagsÁ norrænum vettvangi eru ólíkir undirstraumar og vegna COVID-19-faraldursins hefur orðið til innbyrðis spenna vegna lokunar landamæra og ólíkra viðbragða stjórnvalda. Á hinn bóginn er ríkur vilji til þess að nýta norræna vörumerkið, Nordic Brand, í alþjóðasamstarfi og standa undir væntingum sem það vekur, ekki síst í lýðræðis- velferðar- og heilbrigðismálum.

Ólík aðild ríkjanna að ESB og NATO undirstrikar sérstöðu náins svæðisbundins samstarfs þeirra. Í skýrslu minni er undirtónninn sá að enginn efist um sameiginleg norræn gildi, varðstöðu um lýðræðislega stjórnarhætti, réttarríkið og velferðarkerfið. Verkefnið sé að vinna þessum gildum fylgi á alþjóðavettvangi þegar við blasi að þau eigi undir högg að sækja og alþjóðakerfið tekur óæskilegum breytingum.

COVID-krísan hefur enn orðið til þess að beina athygli að skorti á alþjóðlegri samstöðu og samvinnu, þá verður svæðisbundið samstarf ríkja með sömu meginstefnu enn mikilvægara en áður. Í stórveldakeppni er mikils virði fyrir lítil og meðalstór ríki að standa þétt saman á þann hátt sem Norðurlöndin gera.