27.10.2022 11:19

SV í Noregi breytir um NATO-stefnu

Kýs VG að sigla í sömu átt í NATO-málum og SV en meirihluti stefnunefndar flokksins leggur til að á næsta landsfundi SV verði horfið frá andstöðunni við NATO-aðild Noregs?

SV er norskur systurflokkur Vinstri grænna (VG). Samband flokkanna hefur verið náið í áranna rás. Þeir hafa meðal annars stillt saman strengi við mótun stefnu sinnar í öryggis- og varnarmálum með því að lýsa andstöðu við aðild að NATO.

Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvort VG kýs að sigla í sömu átt í NATO-málum og SV en meirihluti stefnunefndar flokksins leggur til að á næsta landsfundi SV verði horfið frá andstöðunni við NATO-aðild Noregs.

LlindexKatrín Jakobsdóttir og Jens Stoltenberg í Brussel 2. mars 2022 (mynd: NATO).

Torgeir Knag Fylkesnes, varaformaður VG, er í forystu stefnumótunarnefndarinnar. Þar voru fimm af tíu nefndarmönnum sammála um að SV ætti að falla frá andstöðu við aðild Noregs að NATO enda skyldi tryggt að NATO starfaði sem hreint varnarbandalag, segir í frétt norska blaðsins Klassekampen um stefnubreytinguna innan SV.

Í samtali við blaðið segir Torgeir Knag Fylkesnes að rangt sé að standa gegn NATO-aðild nú á tímum. Það sé ekki um neinn annan kost en NATO að ræða. Sagt er að meirihluti stefnunefndarinnar vilji að setningin um andstöðu við aðild sé felld á brott án þess að nokkuð sé minnst á aðild í meginstefnu flokksins. Fjórir í stefnunefndinni vilja að ályktað verði um aðild að norrænu varnarbandalagi í stað NATO. Einn nefndarmanna vill að ályktað verði um úrsögn úr NATO.

Fyrir utan SV hefur flokkurinn Rødt, lengst til vinstri, andstöðu við NATO-aðild á stefnuskrá sinni. Innan Rødt eru engar umræður um að breyta stefnunni gagnvart NATO-aðild.

Torgeir Knag Fylkesnes segir í samtölum við fjölmiðla að stríðið í Úkraínu og umsóknir Finna og Svía um aðild að NATO marki þáttaskil. Of snemmt sé að segja um hvernig endanlegur texti í flokkstefnunni verði, hann verði ákveðinn á landsfundi vorið 2023.

Fréttaskýrendur segja að vegna ástandsins í heimsmálum veki þessi sögulega stefnubreyting SV þá athygli sem hún ella hefði gert. Þá sé í sjálfu sér ekki merkilegt að flokkurinn stigi þetta skref þar sem hann hafi á sínum tíma setið átta ár í ríkisstjórn undir forsæti manns sem gegnt hafi embætti framkvæmdastjóra NATO frá árinu 2014.

Fyrir VG yrði ekki erfitt að rökstyðja sambærilega stefnubreytingu gagnvart NATO og nú er kynnt innan SV. Flokkurinn lýtur forystu forsætisráðherra sem 29. júní 2022 stóð að samþykkt nýrrar grunnstefnu NATO og hefur staðið að öllum aðgerðum bandalagsins frá árinu 2017.

Á sínum tíma var Alþýðubandalagið (forveri VG) á móti aðild Íslands að EES-samstarfinu en hvarf endanlega frá þeirri stefnu snemma árs 2007. Að sú stefnubreyting hafi skaðað flokkinn er af og frá. Hún auðveldaði honum þvert á móti að laga sig að samtímanum og samstarfi við aðra flokka.