20.12.2018 10:36

Sundruð verkalýðshreyfing

Forystumenn Eflingar-stéttarfélags og VR vilja mynda samstöðu til að sýna í verki hvernig þau geti beitt félögunum til að fylgja fram stefnu sinni um þjóðfélagsleg átök

Nú, 20. desember, er réttur mánuður frá því að sagt var frá því á ruv.is að sæist ekki fljótlega til lands í kjaraviðræðum VR og Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins kæmi til greina að vísa deilunni til sáttasemjara ríkisins 10. desember. Undirbúningur aðgerða gæti hafist fyrir áramót ef viðræður hjá sáttasemjara yrðu árangurslausar. Til greina kemur að sameina samninganefndir VR og Starfsgreinasambandsins.

Þetta hefur ekki gengið eftir. Efling-stéttarfélag vill ekki samflot með Starfsgreinasambandinu og nú segist Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, „fagna því ef félaginu verður boðið til samstarfs við Eflingu í kjaraviðræðum“ (ruv.is 19. desember).

Formaður VR segir að hugur sé fyrir því inna VR að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Þá færðist verkstjórnarvald í viðræðunum frá aðilunum sjálfum í hendur ríkissáttasemjara og verkalýðsfélögin gætu gripið til verkfallsaðgerða til að knýja á um kjarasamninga.

1103611Formenn stjórnarflokkanna hittu forystusveit í kjaraviðræðunum á fundi í Ráðherrabústaðnum miðvikudaginn 19. desember, Þar var rætt um þátt ríkisvaldsins til að stuðla að sátt á vinnumarkaði. Eftir fundinn skýrðist sundrung innan verkalýðshreyfingarinnar betur en áður. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Forystumenn Eflingar-stéttarfélags og VR vilja mynda samstöðu til að sýna í verki hvernig þau geti beitt félögunum til að fylgja fram stefnu sinni um þjóðfélagsleg átök í anda stéttastríðs sósíalista undir forystu formanns þeirra og hugmyndafræðings, Gunnars Smára Egilssonar.

Sólveig Anna Jónsdóttir hjá Eflingu og Ragnar Þór hafa til þessa látið eins og þau ættu einhverja samleið með öðrum í baráttu sinni. Svo er ekki og nú ætla þau skjóta sér í skjól ríkissáttasemjara til að geta komið illu af stað án þess í raun að leggja nokkurt efnislega af mörkum til að leysa úr kjaradeilunni. Þau eru ekki foringjar þeirrar gerðar að þau geri einhvern raunhæfan málstað að sínum og berjist fyrir honum með málefnalegum rökum. Í þeirra huga hafa átökin gildi sama hver niðurstaðan verður.

Þetta er sorgleg staðreynd.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur vænlegt að halda viðræðum áfram án aðkomu ríkissáttasemjara.

„Ég held að það sé fullkomlega ótímabært að vísa þessari deilu til ríkissáttasemjara og ég hef gengið svo langt að segja að ég telji það óskynsamlegt á sama tíma. Við erum rétt búin að funda sjö sinnum með deiluaðilum, SGS [Starfsgreinasambandsins] og VR og þar erum við rétt búin að ávarpa þessa stærstu þætti í kröfugerðinni,” sagði Halldór Benjamín á visir.is fimmtudaginn 19. desember.

Krafan um að vísa málum til ríkissáttasemjara á þessu stigi er til marks um sundrung og veikleika innan verkalýðshreyfingarinnar, kjark- eða dugleysi andspænis viðfangsefninu sjálfu: að tryggja að árangur liðinna ára verði ekki eyðilagður og vernda mikinn kaupmátt launþega.