Súez-skurður opnast að nýju
Tæpri viku eftir að risa-gámaskipið Ever Given lokaði Súez-skurðinum tókst að koma því á flot að nýju og af stað norður eftir skurðinum síðdegis mánudaginn 29. mars.
Tæpri viku eftir að risa-gámaskipið Ever Given lokaði Súez-skurðinum tókst að koma því á flot að nýju og af stað norður eftir skurðinum síðdegis mánudaginn 29. mars. Umferð um skurðinn hefst nú að nýju.
Skipið, 400 metra langt, var á leiðinni frá Malasíu til Hollands þegar það lenti í hremmingum þriðjudaginn 23. mars. Fyrstu fréttir voru um að vélar skipsins hefðu slegið út, síðan var sagt að það hefði borið af leið vegna sandstorms og loks var gefið til kynna að mannleg mistök hefðu orðið til þess að skipið strandaði og lagðist þvert yfir skurðinn.
Unnið að því að losa risaskipið af strandstað.
Ever Given er skráð í Panama í eigu japanska félagsins Imabari og starfrækt af Evergreen Marine á Tævan. Skipið var smiðað árið 2018 og getur flutt 20.000 gáma en í þessari ferð eru þeir 18.300. Að kvöldi sunnudags 28. mars biðu 369 skip eftir að komast 193 km skurðinn. Um helgina voru 14 dráttarbátar komnir í Súez-skurðinn til að ýta og draga Ever Green á háflæði að kvöldi sunnudags 28. mars. Tókst þá að hreyfa skipið og síðan losa það alveg á mánudeginum.
Strax og skipið strandaði bundu sérfræðingar helst vonir við að úr vandræðum vegna strandsins mundi rætast á þessu háflæði því að annars yrði að bíða í tvær vikur eða gera tilraunir til að afferma skipið sem yrði hægara sagt en gert þar sem engir nógu stórir færanlegir kranar væru til í veröldinni til að ná upp á skipið.
Yfirmaður egypsku stofnunarinnar sem stjórnar umferð um Súez-skurð sagði að þessi lokun hans þýddi 14 til 15 milljón dollara tap dag hvern fyrir stofnun sína. Hann sagði að það tæki langan tíma að stytta skipa-biðlistann við skurðinn, taldi hann um 450 skip á honum. Hvern dag fara um 12% heimsviðskipta, um milljón tunnur af olíu og rúmlega 8% af fljótandi jarðgasi um Súez-skurð.
Í gögnum frá Lloyd's List kemur fram að strand Ever Given hefði í för með hindrun viðskipta sem næmu 9.6 milljörðum dollara dag hvern. Þá birtust fréttir um að leiga á skipum til flutninga á varningi frá Asíu og Mið-Austurlöndum hefði hækkað um 47%.
Hér eru því gífurleg fjárhagsleg verðmæti í húfi. Þá hefur einnig verið bent á að velferð dýra sem flutt eru á fæti sjóleiðis landa á milli hafi verið stofnað í voða vegna lokunar skurðsins. Rúmenar flytja til dæmis þúsundir lifandi sauðfjár til Sádí-Arabíu þar sem því er slátrað að hætti múslima. Í dýraflutningum er alls ekki gert ráð fyrir svona löngum töfum og því þrýtur bæði fóður og vatn á tiltölulega skömmum tíma.
Vegna strandsins beinist athygli að öðrum flutningaleiðum. Þar er nefnd til sögunnar mannvirkjafjárfesting Kínverja sem teygir sig um heim allan undir heitinu belti og brú. Lestarflutningar frá Kína til Evrópu kunna að taka kipp við þetta. Þá er talið að bætt samskipti Ísraela við Sameinuðu furstadæmin kunni að leiða til þess að nýjar flutningaleiðir opnist sem minnki ferðir um Súez-skurð. Loks er bent á Norðurleiðina, það er siglingaleiðina fyrir norðan Rússland milli Kyrrahafs og Atlantshafs.