Styrkur Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn á að líta inn á við eftir þessar kosningar, ekki til þess að snúa til baka heldur til þess að skilgreina sig betur og slípa sem aflvaka tækifæra og breytinga í íslensku nútímasamfélagi.
Vinur minn á Facebook, Arnþór Jónsson, sem ég veit ekki til að hafi látið málefni Sjálfstæðisflokksins eða stuðning við hann sig sérstaklega varða sagði í færslu sunnudaginn 1. desember:
„Bjarni Ben er sigurvegari kosninganna. Eftir allt yfirlætið, gauraganginn og hótanir Svandísar og VG slítur hann stjórnarsamstarfinu á krítískum tíma og þurrkar með því út alla vinstri- og vók flokkana í skiptum fyrir tvo þingmenn. Það þætti góður díll á sumum bæjum.“
Þetta má vissulega til sanns vegar færa. Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum við óvenjulegar aðstæður í mars 2009 eftir að hafa setið sex ár á þingi án þess að verða ráðherra.
Þetta var skömmu eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og VG var mynduð með stuðningi Framsóknarflokksins undir formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Gengið var til kosninga í apríl 2009 og þá hlaut Samfylkingin 29,8% og varð stærst en Sjálfstæðisflokkur fékk 23,7% og VG 21,7%.
Þá þegar sýndi sig að undir forystu Bjarna stóð Sjálfstæðisflokkurinn í ístæðinu og frá 2013 hefur hann verið stærsti flokkurinn í ríkisstjórnum landsins. Hann hefur aldrei notið minna kjörfylgis en í kosningunum núna, 19,4% en Samfylkingin fékk 20,8; munar einu sæti á flokkunum á þingi 14:15, það er í raun ekki marktækur munur í fylgi þótt eitt sæti á þingi geti skipt miklu við stjórnarmyndun. Allt segir þetta meira um veika stöðu Samfylkingarinnar eftir 11 ár í stjórnarandstöðu en styrk Sjálfstæðisflokksins og stefnu hans.
Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna ESB-mála annars vegar og útlendingamála hins vegar. Fyrrverandi formaður hans og varaformaður gegna mikilvægum hlutverkum í Viðreisn. Nú bauð fyrrverandi þingmaður hans í Reykjavík sig fram fyrir Miðflokkinn í borginni. Báðir þessir flokkar fengu góða kosningu að þessu sinni. Vindar blása nú í segl hægri flokka.
Í þessu ljósi er furðulegt að sjá vinstrisinna skýra fylgisþróunina til dæmis með þeim rökum að Sjálfstæðisflokkurinn minnki af því að ríkisstofnanir á borð við Þjóðhagsstofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins voru aflagðar. Hefur einhver flokkur á stefnuskrá sinni að endurreisa þær? Eða kemur einkavæðing bankanna á sínum tíma í veg fyrir einkarekstur á fjármálastofnunum núna? Það er ímyndun að nýfrjálshyggjan sem fest var hér í sessi með aðildinni að EES stórskaði Sjálfstæðisflokkinn. Það var einfaldlega ekki tekist á um þessi fortíðarmál í kosningum hér árið 2024.
Þeir sem halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé skjól fyrir „sérhagsmuni nýríkra auðmanna“ hlutu hraklega útreið í þessum kosningum núna. Ætli Samfylkingin að láta slík sjónarmið ráða ferð sinni við stjórnarmyndun núna verður hún áfram utan ríkisstjórnar.
Sjálfstæðisflokkurinn á að líta inn á við eftir þessar kosningar, ekki til þess að snúa til baka heldur til þess að skilgreina sig betur og slípa sem aflvaka tækifæra og breytinga í íslensku nútímasamfélagi. Eins og mál standa eftir kosningarnar er brýnast að sú umbylting hefjist í starfi hans í sjálfri höfuðborginni.