11.10.2019 11:03

Styrkur Katrínar Jakobsdóttur

Styrkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í íslenskum stjórnmálum nú um stundir er svo mikill að stjórnarandstaðan kemur hvergi á hana höggi.

Styrkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í íslenskum stjórnmálum nú um stundir er svo mikill að stjórnarandstaðan kemur hvergi á hana höggi. Síðasta útspil stjórnarandstöðunnar gegn ráðherranum er atlaga að henni á alþingi vegna stjórnarfrumvarps sem hún flytur til að „taka af öll tvímæli um eindreginn sáttavilja ríkisstjórnar og Alþingis“ í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem vekur sterkar tilfinningar og reynist erfitt og flókið úrlausnar. Í greinargerð frumvarpsins segir meðal annars:

„Enda þótt fjármunir geti aldrei bætt það tjón sem ranglátur dómur olli hinum sýknuðu og fjölskyldum þeirra er eigi að síður nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði bætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum. Lagt er til að Alþingi staðfesti skýra lagaheimild ráðherra til að bæta að einhverju leyti ranglætið sem hinir sýknuðu urðu fyrir, án þess þó að skerða á nokkurn hátt rétt aðila til að bera kröfur sínar undir dóm.“

Nokkrar umræður urðu um málið á alþingi mánudaginn 7. október. Þegar þær eru lesnar sést að ræðumenn lögðust gegn frumvarpinu á ólíkum forsendum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði meðal annars:

„Mín skilaboð eru einfaldlega þau að mér finnst þetta frumvarp sorglegt, það er að einhverju leyti pólitísk leiktjöld, þó að ég viti að það sé góður og sterkur hugur hjá forsætisráðherra til að gera vel í þessu máli. Ég held einfaldlega að þetta skref hafi verið mistök og það er allt í lagi að viðurkenna það. Þetta mál má ekki verða til þess að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar. Þetta mál á að verða okkur lexía til að breyta rétt, bregðast rétt við og hluti af því er ekki að draga pólitíkina inn í málið aftur. Það má alls ekki gerast. Það þarf því engum að koma á óvart að ég er frekar ósátt við þessa leið.“

Þarna fer ekki á milli mála að flokksformaðurinn setur málið í flokkspólitískt samhengi. Þorgerður Katrín óttast að frumvarpið kunni að „bjarga andliti ríkisstjórnarinnar“ og þess vegna leggst hún gegn því. Henni var kappsmál að nýbirt greinargerð ríkislögmanns vegna máls Guðjóns Skarphéðinssonar yrði afturkölluð.

KJKatrín Jakobsdóttir

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók annan pól í hæðina. Hann minnti á að frá upphafi hefði pólitík tengst málinu í 45 ár og sagði: „Pólitíkin ákveður að taka það upp. Pólitíkin fer fram hjá dómstólunum og pólitíkin ætlar nú að borga bætur og það bætur sem eru í engu samræmi við íslenskan veruleika, ekki einu sinni amerískan. Ég tek ekki þátt í því.“ Hann sagði einnig: „Ég vil að þetta mál verði útkljáð og ég vil auðvitað að ríkið geri sínar ýtrustu kröfur. Það útilokar ekki að það sé tilbúið til samninga á eðlilegum grunni.“

Katrín Jakobsdóttir sagði í lok umræðnanna:

„Það er augljóst í ljósi þess sem hér er rætt um greinargerð ríkislögmanns að þetta frumvarp, verði það að lögum, hefur eðlilega veruleg áhrif á þann málatilbúnað því að þar með eru tekin af öll tvímæli um bótaskyldu ríkisins í málinu. Ég er síðasta manneskjan til að óska þess að þetta mál fari í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir. Mér þykir leitt ef fólk telur að það sé ætlan mín með framlagningu frumvarpsins. Hér er ég að hlíta mjög skýrum ráðum þeirra sem fóru með umboð ríkisins í því verkefni að reyna að ná samkomulagi við alla aðila og fylgja þeirri heildarsýn að þeir fimm aðilar sem hér er um að ræða njóti jafnræðis. Þess vegna er þetta frumvarp komið hingað inn. Hér er ekki verið að biðja hv. þingmenn um að taka þátt í efnislegri umræðu um inntak máls eða fara í einhver yfirboð á fjárhæðum. Það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi og mér þykir leitt ef hv. þingmenn gera mér það upp hér.“

Að svo mæltu beygði forsætisráðherra af í ræðustól þingsins Í Kastljósi sjónvarpsins fimmtudaginn 10. október sagði Katrín Jakobsdóttir:

„Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að gráta yfir þessu stóra máli, og í raun og veru miklu óeðlilegra að gráta ekki yfir því. Þetta er mál sem er einstakt og hefur varpað löngum skugga, 40 ára gamalt óleyst sakamál sem hefur varpað löngum skugga, ekki bara sá angi þess sem er til umfjöllunar í þessu frumvarpi heldur margir aðrir angar og margir sem hafa átt um sárt að binda. Ég er ánægð með það að þótt ég hafi verið lengi í pólitík er ég ennþá bara tilfinningavera.“