15.5.2022 10:27

Styrkur gömlu flokkanna

Það segir sína sögu fyrir nýja kynslóð innan Samfylkingarinnar að síðasti formaður Alþýðuflokksins skuli ná bestum árangri undir S-merkinu í þessum kosningum.

Hafi það verið tilgangur aðfararinnar að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og flokknum með upphlaupi ungliða innan Samfylkingarinnar vegna sölunnar á Íslandsbanka að styrkja flokk sinn og treysta forystu hans í Reykjavík, misheppnaðist aðförin eins og úrslitin í borginni sýna. Þeir sem styrktu stöðu sína þar, fyrir utan ríkisstjórnarflokkinn Framsókn, voru sósíalistar og píratar. Samfylkingin tapaði fylgi eins og Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur enn stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í höfuðborginni.

Hafi það verið tilgangur aðfararinnar að Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, vegna nöturlegra ummæla hans á flokksskemmtun í tengslum við búnaðarþing að grafa undan Framsóknarflokknum misheppnaðist hún gjörsamlega.

Gamalgrónu flokkarnir tveir sem hafa ekki hlaupist undan eigin sögu koma sterkastir frá sveitarstjórnarkosningunum. Í þeim sannaðist enn að tilraunin með Samfylkinguna sem vinstri stoð til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn er úr sögunni.

IMG_4881Stjórnendur í ráðhúsinu við Tjörnina verða aðrir nú eftir kosningarnar.

Hástökkvarinn undir merkjum Samfylkingarinnar er Guðmundur Árni Stefánsson (f. 1955) sem varð formaður Alþýðuflokksins árið 2000 þótt hann sæti á þingi fyrir Samfylkinguna til ársins 2005 þegar hann varð sendiherra í tíð Davíðs Oddssonar sem utanríkisráðherra. Guðmundur Árni var bæjarstjóri Hafnarfjarðar 1986–1993. Þrátt fyrir gott gengi Guðmundar Árna í kosningunum nú er Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Rósu Guðbjartsdóttur áfram stærsti flokkurinn í Hafnarfirði og hefur styrk til að mynda meirihluta með Framsóknarflokknum.

Það segir sína sögu fyrir nýja kynslóð innan Samfylkingarinnar að síðasti formaður Alþýðuflokksins skuli ná bestum árangri undir S-merkinu í þessum kosningum.

Sé litið á stöðu Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs veiktist hún í kosningunum. Þær sönnuðu að styrkur flokksins felst í persónufylginu við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Leiði hún ekki beint kosningabaráttu VG dalar flokkurinn.

Þeirri skoðun hefur áður verið hreyft hér og skal nú endurtekin að sjálfstæðismenn í Reykjavík verða að stokka upp flokksstarf sitt í Reykjavík. Vandræðagangurinn við ákvörðun um aðferð við velja fólk á framboðslistann varð ekki til að efla traust á flokknum í borginni. Fyrsta skrefið við þessa nauðsynlegu uppstokkun er að horfast í augu við að í Reykjavík eru tvö kjördæmi í þingkosningum. Flokksstarfið þarf að laga að þeirri staðreynd og síðan hafa sameiginlegan vettvang til ákvarðana við kjör til borgarstjórnar.

Þá er sjálfstæðismönnum nauðsynlegt að stórefla varnir sínar gegn fjölþátta ógnunum og árásum í aðdraganda kosninga. Þær spretta af ólíklegustu tilefnum, eiga greið í alla miðla og verða hatrammar.

Eitt er að sigra í kosningum, annað að vinna úr sigrinum á farsælan hátt. Framsóknarmanna bíður nú það vandasama verkefni. Sagan sýnir að þeir brosa bæði til hægri og vinstri. Þeir hafa þó hvergi tapað á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár.