20.8.2020 10:25

Styrkur formanns Sjálfstæðisflokksins

Hann hefur styrk af því að staða ríkissjóðs var sterk undir hans stjórn þegar áfallið vegna veirunnar varð.

Umræður snerust um allt annað en góða stöðu ríkissjóðs undir forystu sjálfstæðismannsins Árna Mathiesens eftir bankahrunið haustið 2008.

Með myndun fyrstu „hreinræktuðu“ vinstri stjórnarinnar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar með stuðningi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, nýkjörins formanns Framsóknarflokksins, var ætlunin að ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til hliðar eins og þessir sömu flokkar ætluðu að gera með fyrstu vinstri stjórn lýðveldisins sumarið 1956.

Fr_20200819_142575Bjarni Benediktsson í Kastljósi 19. ágúst 2019 (mynd ruv.is).

Bjarni Benediktsson tók við formennsku Sjálfstæðisflokksins við erfiðar aðstæður í mars 2009. Síðan hefur hann lengst allra verið fjármála- og efnahagsmálaráðherra og átt mestan hlut stjórnmálamanna að því að stýra efnahag þjóðarskútunnar farsællega. Hann tekst nú á við flóknasta verkefnið á ferli sínum þegar siglt er um ókönnuð og ókortlögð svæði. Hann hefur styrk af því að staða ríkissjóðs var sterk undir hans stjórn þegar áfallið vegna veirunnar varð.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur komist þannig að orði að ekki sé við neinar handbækur að styðjast þegar lagt sé á ráðin um það hvernig sigrast skuli á veirunni á starfssviði. Menn verði því að sætta sig við að farnar séu ótroðnar slóðir og óvíst sé um árangurinn.

Í grein sem Bjarni Benediktsson skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann meðal annars:

„Frá fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins hafa skilaboð okkar verið skýr: Við munum beita ríkisfjármálunum til að hjálpa fólki og fyrirtækjum í vanda og skapa skilyrði fyrir vöxt efnahagslífsins á ný. Líklega má fullyrða að enginn sé ósnortinn af afleiðingum faraldursins, en afleiðingarnar væru meiri og þungbærari ef ekkert væri aðhafst. [...]

Hallarekstur ríkissjóðs felur því við þessar aðstæður ekki í sér þjóðhagslegt tap í sjálfu sér, þótt hann endurspegli efnahagslegt tap vegna útbreiðslu veirunnar. Hallanum er öllum varið til að styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja, skapa störf, koma í veg fyrir að verðmæti glatist að óþörfu og örva hagkerfið til að gera okkur kleift að vaxa út úr þessu gríðarlega áfalli sem heimsfaraldurinn er. Við eigum engan valkost annan en að sækja fram, skapa meiri verðmæti, framleiða, auka skilvirkni og stækka þjóðarkökuna. Án vaxtar bíður ekkert annað en harkaleg aðlögun sem mun kosta okkur mikið í lífskjörum.[...]

Við erum í ákveðnum skilningi í stríði gegn ytri ógn. Nú þegar hafa margar orrustur verið háðar og við getum sagt að útkoman hafi verið vel viðunandi miðað við aðstæður. Höfum hugfast að þetta stríð getur varað enn um sinn og við þurfum áfram að byggja árangur okkar á samstöðu.“

Í samtali á forsíðu Morgunblaðsins segir Bjarni um ákvarðanir sínar sem fjármála- og efnahagsmálaráðherra:

„Nei, þetta var ekki erfitt val fyrir mig sem formann Sjálfstæðisflokksins. Miklu frekar að ég fyndi til ánægju með að okkur hafi tekist að byggja upp þá stöðu á liðnum árum að geta tekist á við svona áföll.“