20.1.2022 8:52

Styðjum málstað Litháa

Þetta er mál sem varðar okkur Íslendinga ekki síður en aðrar aðildarþjóðir EES-markaðarins. Við sýndum Litháum samstöðu þegar þeir börðust fyrir sjálfstæði undan Sovétríkjunum, samstöðu sem Litháar meta mikils og gleyma ekki.

Á vefsíðunni EUobserver birtist þriðjudaginn 18. janúar grein eftir Jonas Parello-Plesner sem segist hafa verið í Vilníus, höfuðborg Litháens, um miðjan nóvember 2021 og talað á ráðstefnu sem Gabrielius Landsbergis (40 ára), djarfhuga utanríkisráðherra Litháens, skipulagði um lýðræði og varðstöðu gegn ofríkisstjórnum. Vytautas Landsbergis, sókndjarfur baráttumaður fyrir sjálfstæði Litháens 1991, er afi utanríkisráðherrans.

Gabrielius-Landsbergis-minister-against-authoritarian-regimesGabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens.

Í greininni segir Parello-Plesner að á sama tíma og hann dvaldist í Vilnius hafi fulltrúi Tævanstjórnar opnað þar skrifstofu. Það hafi leitt af sér nýjan kafla í sögu kínversks efnahagshernaðar á hendur lýðræðisríkjum vegna ákvarðana sem ráðamenn þeirra taka.

Viðræður ráðamanna við Dalai Lama kalla á reiðileg viðbrögð frá Peking og þegar kínverskur andófsmaður fékk friðarverðlaun Nóbels slitu Kínverjar öll viðskiptatengsl við Norðmenn.

Að því er Litháen varðar hafa Kínverjar ekki aðeins hætt öllum tvíhliða viðskiptum við Litháa heldur beitt evrópsk fyrirtæki þrýstingi til að fæla þau frá viðskiptum við Litháa. Þar með hafi þeir vegið að viðskiptafrelsi á EES-markaðnum.

Strax í nóvember réttu Bandaríkjamenn hjálparhönd til Litháa til að auðvelda þeim að afla sér útflutningslána. Síðar hafa Tævanar eflt efnahagslega samvinnu sína við Litháa. ESB-ríkin gerðu hins vegar ekkert segir Parello-Plesner.

Í fyrstu töldu ráðamenn í Berlín og París að Litháar hefðu gengið of langt. Á fulltrúaskrifstofunni í Vilnius stóð orðið Tævan í stað þess að láta nafn höfuðborgarinnar Taipei duga eins venja var. Litháar brutu þó ekki gegn stefnu ESB um „Eitt Kína“.

Í greininni segir að það sé prófsteinn á hvort ESB geti staðist efnahagslega nauðung af hálfu Kínverja hvernig snúist verður til varnar í þágu Litháa. Nú fari Frakkar með pólitíska forystu í ESB og þeir eigi að muna þegar Kínverjar settu árið 2008 bann á franskar vörur og verslanir Carrefour eftir að Sarkozy Frakklandsforseti hitti Dalai Lama. Þetta gerist enn og aftur nema ESB svari kröftuglega.

Þá reyni líka á nýju þriggja flokka stjórnina í Þýskalandi. Það sé fagnaðarefni að háttsettur þýskur embættismaður hafi nýlega heimsótt Vilnius og boðað samstöðu ESB-ríkja með þeim orðum að innri markarðurinn, EES-markaðurinn, sé „heilagur“.

Í greininni er hvatt til þess að ESB taki þetta framferði Kínverja upp hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, enda brjóti það í bága við grundvallarreglur um frjáls viðskipti.

Þetta er mál sem varðar okkur Íslendinga ekki síður en aðrar aðildarþjóðir EES-markaðarins. Við sýndum Litháum samstöðu þegar þeir börðust fyrir sjálfstæði undan Sovétríkjunum, samstöðu sem Litháar meta mikils og gleyma ekki. Nú eiga þeir í útistöðum við annað ofstjórnarríki kommúnista og „taka slaginn“ fyrir alla málsvara frjálsra alþjóðaviðskipta. Það ber að sýna þeim evrópskan samhug og andmæla kínverskum yfirgangi í alþjóðaviðskiptum.