20.5.2023 10:51

Stríðshanski í silkihanskaviðtali

Lesandi viðtalsins er engu nær um nein málefni og úrlausn þeirra. Áhuginn á utanríkismálum nær ekki lengra en til afdönkuðu stefnunnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 

Farið er silkihönskum um Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í samtali í Morgunblaðinu í dag (20. maí). Hún talar í hálfkveðnum vísum án þess að spurningum sé fylgt eftir til að fá botn í það sem hún segir. Helsta stefnumálið virðist vera að komast í embætti fjármálaráðherra til að hækka skatta í þágu heilbrigðiskerfisins.

Margoft er endurtekið að það sem hún boði séu sósíaldemókratísk viðhorf. Ekki er þó gerð minnsta tilraun til að greina hvað að baki orðinu býr í huga Kristrúnar. Nú um þessar mundir eru sósíaldemókratískir forsætisráðherrar í Noregi og Danmörku. Þeir fylgja ekki sömu stjórnarstefnu.

Norski forsætisráðherrann hefur til dæmis á tiltölulega skömmum tíma hrakið auðuga skattgreiðendur úr landi, einkum til Sviss, með auðlegðarskatti í anda þess sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon lögðu hér á fyrir rúmum áratug. Er það slík stefna sem Kristrún sér fyrir sér í stjórninni sem henni virðist helst að skapi með Katrínu Jakobsdóttur?

Aðhyllist Kristrún stefnu danskra sósíaldemókrata í útlendingamálum? Sósíaldemókratíska forsætisráðherranum hefur tekist að draga allan mátt úr Danska þjóðarflokknum með því að taka upp útlendingastefnu hans. Heldur Kristrún að hún geti fylgt slíkri stefnu í samvinnu við Katrínu Jakobsdóttur? Eða svo litið sé henni nær: með samþykki Helgu Völu Helgadóttur sem hún rak úr stóli þingflokksformanns?

Screenshot-2023-05-20-at-10.46.27

Lesandi viðtalsins er engu nær um nein málefni og úrlausn þeirra. Áhuginn á utanríkismálum nær ekki lengra en til afdönkuðu stefnunnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Um hana er spurt af því að blaðamaðurinn veit að flokksformaðurinn telur sér til ágætis að hafa horfið frá ESB-stefnunni en hún segist að vísu tilbúin til að skoða aðildarviðræður telji hún hljómgrunn fyrir því meðal almennings.

Ekki er einu orði vikið að hvernig mið-vinstristjórninni, sem flokksformaðurinn þráir, vegnar í Reykjavík þar sem meirihlutasamstarf er reist á sviknum kosningaloforðum. Þögnin um þá fyrirmynd er skiljanleg þegar litið er til viðmælendanna en hún á lítið skylt við vilja til að upplýsa lesandann um hvað fyrir flokksformanninum vakir í raun.

Kjarni viðtalsins er sá sami og var þegar Samfylkingin var stofnuð fyrir tæpum aldarfjórðungi, það verði að skáka Sjálfstæðisflokknum til hliðar í íslenskum stjórnmálum.

Fyrsta tilraunin til þess misheppnaðist í þingkosningunum 2003. Í annarri tilraun árið 2007 komst Samfylkingin í skammlífa stjórn með Sjálfstæðisflokknum og eftir bankahrunið fékk Samfylkingin í eina skiptið í sögu sinni embætti forsætisráðherra í sinn hlut með VG-mann sem fjármálaráðherra; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ýtti þeim úr vör sem nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins. Síðan stjórnuðu flokkarnir tveir í fjögur ár og kostaði það þá næstum lífið árið 2013.

Síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn. Forveri Kristrúnar fylgdi útilokunarstefnu gagnvart sjálfstæðismönnum. Hún gerir það ekki en kastar stríðshanskanum í silkihanskaviðtalinu.