Strandveiðar – ESB-umsókn
Eftir því sem dýpra er skyggnst inn í stjórnarsáttmálann þeim mun betur skýrist hve lítil vinna hefur verið lögð í gerð hans og staðreyndakönnun af hálfu forystumanna flokkanna og þingmanna.
Eftir því sem dýpra er skyggnst inn í stjórnarsáttmálann þeim mun betur skýrist hve lítil vinna hefur verið lögð í gerð hans og staðreyndakönnun af hálfu forystumanna flokkanna og þingmanna.
Stjórnarsáttmálar hafa ekki gildi hvort sem þeir eru langir eða stuttir nema augljóst sé að þar sé farið með rétt mál og aðstandendur þeirra viti hvað það þýðir sem þar er sagt.
Á visir.is er sagt frá því sem fram kom í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 22. desember þegar Kristján Kristjánsson þáttarstjórnandi ræddi við konurnar þrjár í forystu ríkisstjórnarinnar um efni stjórnarsáttmálans og spurði sérstaklega hvað fælist í fyrirheiti 12. liðar sáttmálans um að ríkisstjórnin muni „tryggja 48 daga til strandveiða“. Þegar Kristján benti á að 48 daga reglan væri nú þegar í gildi brást Inga Sæland illa við og sakaði Kristján um að „bulla“. Hvorki hún né Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virtust vita hvað í orðum sáttmálans fælist.
Myndin er af vefsíðunni Island.is þar sem m.a. er fjallað um strandveiðar.
Þeir sem til þekkja verða einnig spurningarmerki þegar skoðað er orðalagið í 23. lið sáttmálans þar sem stendur: „Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027.“
Þessi setning er ástæðan fyrir því að Viðreisn á aðild að þessari vinstri stjórn og formaður flokksins er utanríkisráðherra.
Eins og orðalagið er í sáttmálanum ganga flokkarnir út frá að hvorki hafi verið hlé á viðræðunum við ESB né þeim slitið. Þetta fellur ekki að skoðun Ingu Sæland sem birst hefur við flutning Flokks fólksins á tillögu til þingsályktunar um að ESB-umsóknartillaga Íslands frá 2009 verði dregin til baka. Inga efast ekki um slit viðræðnanna við ESB en telur ekki „ljóst hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda“.
Utanríkisráðuneytið hefur undanfarin ár staðið að útgáfu vandaðs fréttabréfs, Brusselvaktarinnar, um það sem hæst ber í málefnum ESB. Þar var 8. nóvember 2024 rætt um stækkunarstefnu ESB vegna þess að framkvæmdastjórn ESB hefði þá nýlega birt árlega skýrslu um framgang stækkunarstefnu ESB (e. EU Enlargement Policy).
Nú eru ESB-umsóknarríkin 10 talsins, þ.e. Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Kósovó, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía, Georgía, Moldóva, Úkraína og Tyrkland.
Bent er á að umsóknarferlið og samningaviðræður við ESB fari fram í mörgum þrepum og sé afar ítarlegt eins og Íslendingar þekki frá þeim tíma þegar Ísland sótti um aðild að sambandinu árið 2009. Þá segir í þessu fréttabréfi íslenskra stjórnvalda „en umsókn Íslands var eins og kunnugt er dregin til baka í kjölfar alþingiskosninga vorið 2013“. Feitletrunin er mín.
Nú er spurning hvort nýi utanríkisráðherrann gefi fyrirmæli um endurritun sögunnar svo að hún falli að blekkingunni í stjórnarsáttmálanum. Að sjálfsögðu var umsókn Íslands dregin til baka og Ísland þess vegna tekið úr hópi umsóknarríkja. Það er sorglegt að í stóru og smáu neita þeir sem tala máli ESB-aðildar að gera það með vísan til staðreynda.