Stórveldarígur vegna veiru
Stórveldarígur verður ekki til að kveða niður kórónaveiruna, COVID-19. Hann er þó hluti vandans vegna hennar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, segir á visir.is í dag (12. mars) að hann hafi „snöggreiðst“ þegar hann heyrði að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði þá um nóttina sett fyrirvaralaust ferðabann á Schengen-ríki Evrópu vegna þess hve illa þeim hefði gengið að hafa hemil á útbreiðslu kórónaveirunnar. Bjarni segir:
„Ég lít þannig á að við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni. Þetta sýnir enn og aftur það sem við höfum séð svo oft í sögunni og megum aldrei gleyma að þegar svona krísur koma upp; þá er hver sjálfum sér næstur. Þetta er bara enn eitt dæmið um það og við verðum að gæta að okkar hagsmunum líka. [...]
Það er ekki boðleg nálgun að segja að stjórnvöld hafi verið kærulaus í öðrum ríkjum. Veiran hefur komið upp í Bandaríkjunum, veiran varð ekki til í Evrópu.“
Einhliða ráðstafanir Donalds Trumps vegna
veirunnar eru í samræmi við margt annað sem einkennir framgöngu hans á alþjóðavettvangi.
Hann hneigist til að færa allt í pólitískan búning til heimabrúks og viðleitni
hans í þá átt eykst jafnt og þétt nú á kosningaári. Að ætla að slá sér upp á
kostnað samskiptanna við Evrópuþjóðir vegna kórónaveirunnar snýst meira um pólitík
en sóttvarnir. Að hólfa Evrópuþjóðir niður vegna þessa með vísan til aðildar að
Schengen-samstarfinu á ekki við nein rök að styðjast.
Undanfarið hafa evrópskir stjórnmálamenn sem áttu samleið með Barack Obama sem Bandaríkjaforseta rifjað upp að þegar ebóla-faraldur komst á hættustig á sínum tíma hafi forsetinn beitt sér fyrir forystu Bandaríkjamanna í baráttunni við vágestinn og þar með hafi verið stigið stærsta skrefið til sigurs á honum. Nú sé öldin önnur. Trump-stjórnin haldi að sér höndum og sýni enga alþjóðlega forystu. Hver veit nema viðhorf af þessu tagi hafi ýtt undir fyrirvaralausa ákvörðun Trumps um að loka á Evrópu?
Trump vill einangra Bandaríkin en kínverskir ráðamenn stofna til mikillar alþjóðlegrar áróðursherferðar í því skyni að þvo af Kínverjum veirustimpilinn. Sendimenn Kínastjórnar segja að ekki sé víst að veiran eigi upptök sín í Kína þótt faraldurinn vegna hennar hafi hafist þar. Það er hins vegar ekkert sem sýnir að COVID-19 veiran hafi borist í nokkra mannveru áður en Kínverjar veiktust af henni.
Annar áróðurspunktur kínverskra stjórnvalda til að fegra eigin hlut er að hetjuleg barátta Kínverja við pestina hafi búið í haginn fyrir alþjóðlega atlögu að henni. Xi Jinping Kínaforseti hvatti kínverska fjölmiðla til að bregða jákvæðu ljósi á viðbrögð sín og annarra kínverskra ráðamanna gegn pestinni.
Þessi áróður hefur skilað einhverjum árangri þótt vísvitandi þögn kínverskra yfirvalda um veiruna hafi leitt til hömlulausrar útbreiðslu hennar vikum saman í Wuhan. Í þessu skjóli fóru um fimm milljónir íbúar borgarinnar frá henni án skimunar sem leiddi faraldurs í Kína og síðan utan Kína.
Stórveldarígur verður ekki til að kveða niður kórónaveiruna, COVID-19. Hann er þó hluti vandans vegna hennar.