14.3.2022 12:41

Stórtækari og grimmari Pútin

Þegar Pútin tók að predíka að Úkraína væri í raun ekki til vegna þess að þar byggi ekki nein sérstök þjóð vakti það spurningar hjá mörgum um hvort Rússlandsforseti væri með öllum mjalla.

Í blöðum um heim allan velta menn nú fyrir sér heilsufari Vladimirs Pútins Rússlandsforseta. Í The Washington Post var spurt í fyrirsögn hvort Pútin væri ruglaður. Í USA Today stóð í fyrirsögn hvort Pútin væri andlega vanheill. Á netmiðlinu The Daily Beast var gengið lengra og sagt að Pútin væri ekki aðeins galinn. Ástandið á honum væri miklu verra en það.

Um þetta er fjallað i Jyllands-Posten mánudaginn 14. mars og sagt að svo virðist sem Pútin hafi tapað jarðtengingunni undanfarin misseri eftir að hafa verið talinn stjórna af festu og raunsæi. Nú sé engu að treysta í fari hans.

Breytingin á Pútin er meðal annars skýrð með því að hann hafi kosið að dveljast mjög einangraður á tíma COVID-19-faraldursins. Þá hafi hann tileinkað sér ýmsa sérvisku eins og að halda viðmælendum sínum sem lengst frá sér. Þetta á þó ekki við alla. Hann faðmar til dæmis lepp sinn, Alexander Lukaasjenkó, harðstjóra í Hvíta-Rússlandi, þegar þeir hittast og setjast síðan á rökstóla með aðeins lítið bil á milli sín.

Unnamed_1647261624954Þegar Pútin tók að predíka að Úkraína væri í raun ekki til vegna þess að þar byggi ekki nein sérstök þjóð vakti það spurningar hjá mörgum um hvort Rússlandsforseti væri með öllum mjalla. Furðulegt hefur verið að fylgjast með vandræðum þeirra, hér á landi og annars staðar, sem tóku beint eða óbeint undir þetta rugl í Pútin en hafa síðan lent í stöðugt meiri vandræðum með að gæta eigin trúverðugleika.

Nú er minnt á að allt frá því að Pútin komst til valda árið 1999 hafi stjórnarhættir hans mótast af vilja hans til að brjóta nágrannaþjóðir undir Rússland. Strax eftir valdatökuna fór Pútin til átakasvæðisins sem þá var í aðskilnaðarlýðveldinu Tjetjeníu og gaf fyrirmæli um að kæfa alla andspyrnu gegn Rússum með ofurafli. Tugir þúsunda manna týndu lifi í stríði Pútins sem féll í skuggann af því sem gerðist eftir að ráðist var á New York og Washington 11. september 2001.

Um miðjan fyrsta áratuginn hafði Pútin náð vilja sínum fram í Tjeténíu og 2008 sneri hans sér að Georgíu, hrifsaði tvö héruð þaðan, og 2014 kom röðin að Úkraínu.

Þessi blóðuga saga gerðist fyrir opnum tjöldum gagnvart öllum í Evrópu og annars staðar í heiminum. Þægilegast var að friðmælast við Pútin. Hér á landi skella ýmsir frekar skuldinni á Vestrið eða NATO þegar fjallað er um þessa blóðugu sögu en upphafsmanninn og illvirkjann sjálfan, Pútin. Kenningin um að skynsamlegt væri að halda honum í skefjum með orkukaupum eða annars konar viðskiptum átti hljómgrunn.

Nú þegar öllum er ljóst að Pútin gengur gegn öllu sem skynsamlegt er með ofbeldisverkum sínum láta sumir eins og það sé í raun orðinn hlutur að hann fái alla þá skika af Úkraínu sem hann heimtar og svo snúist hjólin bara áfram í sömu förunum.

Í vestri verða þeir vissulega áfram sem bera í bætifláka fyrir Pútin. Að skýra innrásina í Úkraínu sem afleiðingu einangrunar vegna heimsfaraldursins er einföldun. Pútin er ekkert verri en í upphafi – aðeins stórtækari og grimmari.