7.10.2019 10:10

Stórslysaumræða

Um langt árabil hafa afleiðingar stórslyss vegna skemmtiferðaskips hér í nágrenni Íslands verið á borði ábyrgðaraðila og efnt hefur verið til æfinga hér og erlendis um hvernig við skuli brugðist.

„Leitar- og björgunarsvæði Íslands er það stórt að við höfum lítinn mátt til að sinna því. Ef upp kemur umfangsmikið slys á norðurslóðum höfum við í raun ósköp takmarkaða möguleika til að veita hjálp,“ sagði Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, réttilega við Morgunblaðið fimmtudaginn 3. október. Hann bætti við:

„En ég tel það ekki vera rétt að íslenskir skattgreiðendur eigi einir að standa að þeirri uppbyggingu [á björgunarmætti á norðurslóðum]. Það er í raun ekki hægt að ætlast til þess. Mun frekar ættu menn að setja ábyrgðina á þá sem eru að athafna sig á norðurslóðum, að þeir greiði fyrir sitt.“

Morgunblaðið lét ekki við þetta sitja heldur sneri sér í tilefni þessara orða í dag (7. október) til tveggja þingmanna og birti þennan texta:

„Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, segir ljóst að taka verði til skoðunar fjárframlögin í ljósi umræðu um getuleysi Gæslunnar til að veita hjálp á flennistóru svæðinu. Aðspurður segist Willum ekki geta tjáð sig um hvort floti Landhelgisgæslunnar dugi til. „Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði,“ segir Willum. Í sama streng tekur Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd. Fyrstu umræðu um fjárlög sé nú lokið, en umsagnarfrestur hagsmunaaðila ekki liðinn, og eigi hann von á að sjónarmið Landhelgisgæslunnar verði tekin til skoðunar eftir að þau berast. „Gæslan þarf að meta sína eigin þörf og það þyrfti þá að koma ósk frá henni á borð nefndarinnar,“ segir Ágúst og bætir við að gríðarlega mikilvægt sé að hér sé fullnægjandi björgunar- og eftirlitslið enda Íslendingar sjávarþjóð. „Við þurfum að vera í stakk búin til að takast á við sjóslys, en ekki síður að hafa virkt eftirlit með umhverfisslysum sem gætu reynst okkur dýrkeypt.“ Hættan á slíkum slysum aukist með frekari skipaumferð um norðurskautið.“

Þá segir blaðið frá því að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé kveðið á um heimild gæslunnar til kaupa á þremur þyrlum, sem lagt er upp með að verði teknar í notkun árið 2022. Þær leysi þá af þyrluna TF-LIF, sem hefur verið í eigu gæslunnar frá árinu 1995, og leiguvélarnar tvær TF-GRO og TF-EIR, sem eru frá 2010 en bættust í flotann í ár.

2144Allt er þetta fróðlegt. Telji menn að nú fyrst sé þetta viðfangsefni til umræðu hjá þeim sem huga að öryggi sjófarenda á norðurslóðum er um mikinn misskilning að ræða. Um langt árabil hafa afleiðingar stórslyss vegna skemmtiferðaskips hér í nágrenni Íslands verið á borði ábyrgðaraðila og efnt hefur verið til æfinga hér og erlendis um hvernig við skuli brugðist. Þar gegnir Landhelgisgæsla Íslands vissulega lykilhlutverki en aldrei verður fyrir hendi á einum stað mannafli, skipa- eða þyrlukostur sem kalla yrði á vettvang. Þar yrði um alþjóðlegt björgunarátak að ræða í samræmi við alþjóðlegar áætlanir.

Daninn dr. Rasmus Dahlberg, sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í greiningu stórslysa, flutti erindi um Grænland og norðurslóðir á vegum Varðbergs fimmtudaginn 3. október og má sjá það hér. Hann minnti á það þegar Hans Hedtoft fórst með 95 manns undan suðvesturströnd Grænlands í janúar 1959 í jómfrúarferð sinni. Hann sagði að yrði slys vegna skemmtiferðaskips með mörg þúsund manns um borð hér á okkar slóðum kynni það að verða öllum þyrlum heims um megn að veita aðstoð en þær eru bestu tækin til björgunar við slíkar aðstæður eins og sannaðist við strönd Noregs fyrir nokkrum mánuðum.