25.5.2017 12:16

Stórhluthafi í Kaupmannahafnarflugvelli íhugar sölu

Hér var nýlega skýrt frá því að um 120.000 manns njóta árlega þjónustu á einkasjúkrahúsum í Danmörku. Nú skal sagt frá umræðum um viðskipti með hlutabréf í Københavns Lufthavne.

Áhugi íslenskra vinstrisinna á atvinnurekstri kviknar jafnan þegar þá grunar að uppi séu áform um að færa einhvern rekstur sem er í höndum ríkisins til einkaaðila. Orðið „einka“ fyrir framan orðið „rekstur“ fær hárin til að rísa og rekið er upp hræðsluóp. 

Óttinn er mikill núna vegna: 1. hugmynda um að losa um einokun ríkisins á sölu áfengis; 2. áforma um að leyfa viðskiptavinum lækna á Klínikinni að liggja nokkra daga innan veggja hennar eftir aðgerð; 3. umræðna um að ef til vill sé hagkvæmt að sameina einkarekinn Tækniskóla og Ármúlaskóla og 4. áhuga á að skoða hvort hagkvæmt sé að losa um eignarhald ríkisins á Keflavíkurflugvelli í þágu annarra samgönguframkvæmda.

Hér var nýlega skýrt frá því að um 120.000 manns njóta árlega þjónustu á einkasjúkrahúsum í Danmörku. Nú skal sagt frá umræðum um viðskipti með hlutabréf í Københavns Lufthavne.

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti félagið sem á og rekur Kaupmannahafnarflugvöll og flugvöllinn í Hróarskeldu, Københavns Lufthavne, að stærsti hluthafi félagsins, Macquarie European Infrastructure Fund III (MEIF3), kynni að selja hlut sinn.

Ástralski sjóðurinn Macquarie European Infrastructure Fund III, MEIF3, hefur kallað til ráðgjafa vegna þess sem á ensku nefnist strategisk review, heildarendurmat, á fjárfestingu MEIF3 í flugvallafélaginu. Kann það að leiða til að fyrir árslok verði ákveðið að selja hlutinn.

Macquarie hefur átt hlut í Københavns Lufthavne frá árinu 2005 og sjóðurinn á óbeint 57.7% af hlutafé félagsins með kanadíska kennaralífeyrissjóðnum Ontario Teachers' Pension Plan. Kanadíski sjóðurinn íhugar ekki sölu á sínum hlut.

Þriðjudaginn 23. maí sendi Macquarie Infrastructure and Real Assets (Europe) Limited bréf til stjórnarformanns Københavns Lufthavne og sagði sjóðinn stoltan af samstarfi sínu við Københavns Lufthavne, einkum vegna þess mikla árangurs sem víða hefði náðst síðan árið 2005.

Danska ríkið á 39,2% í Københavns Lufthavne. Kristian Jensen, fjármálaráðherra Dana, segir við Berlingske Tidende að almennt gangi rekstur flugvallarins í Kaupmannahöfn vel og hann sé afkastamikill. Hann gegni lykilhlutverki fyrir þá sem eigi leið til og frá Danmörku. Þess vegna skipti hann danskan efnahag einnig miklu. Stjórnvöld hljóti því að leggja áherslu á að starfsumgjörð flugvallarins og flugfélagana sé góð og ýti undir vöxt. Í því sambandi skipti máli að eignarhald á flugvellinum sé skynsamlegt en þar sem félagið um flugvellina sé skráð í kauphöllinni verði allar umsagnir um það að vera almennar.

Vafalítið sýnist sitt hverjum í Danmörku og þar eru vafalaust öfgamenn til vinstri sem fara á hjörunum heyri þeir orðið „privat“ um rekstur þar sem þeir vilja að ríkið sitji eitt í krafti einokunar. Öfgamennirnir hafa orðið undir og nú er meira að segja rætt um það í Danmörku að styðja eigi efnisgerð fyrir ljósvakamiðla með opinberu fé en ekki kosta rekstur stöðva til að flytja efnið.