1.11.2023 9:28

Støre í vörn

Jonas Gahr Støre tók spurningu íslenska blaðamannsins sem gagnrýni á sig.

Norðurlandaráðsþing er haldið 75. skipti nú í vikunni í Osló. Í gær (31. október) efndu forsætisráðherrar Álands, Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar til blaðamannafundar í tengslum við þingið.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hafði fyrstur orð fyrir ráðherrunum og bauð norrænu stórfjölskylduna velkomna og síðan sagði hver ráðherranna nokkur orð og lýstu þeir allir ánægju yfir að vera þarna meðal norrænna vina- og samstarfsþjóða.

Á vefsíðunni altinget.no er haft eftir Aksel V. Johannesen, lögmanni Færeyja, að á erfiðum tímum sé mikilvægara en nokkru sinni að hitta og ræða við vini sína. Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, fjölmennasta norræna ríkisins, sagði að þarna væru komnir saman fulltrúar smáríkja á stóru svæði sem gætu látið að sér kveða í heiminum stæðu þeir saman.

Nordiske-flag

Þá segir að í máli leiðtoganna hafi komið fram að athygli þeirra beindist mjög að því hvaða áhrif gervigreind hefði í lýðræðislegum samfélögum þeirra, hve mikilvægt væri að vinna gegn loftslagsbreytingum og halda áfram stuðningi við Úkraínu og Úkraínumenn.

Um leið og blaðamönnum var gefið orðið vöktu þeir máls á ólíkri afstöðu ríkisstjórna landanna við atkvæðagreiðslu á allsherjarþinginu um helgina þegar samþykkt var með 120 atkvæðum óskuldbindandi ályktun um vopnahlé á Gaza.

Norðmenn greiddu atkvæði með ályktuninni en fulltrúar Dana, Finna, Íslendinga og Svía greiddu ekki atkvæði.

„Það hefur verið rætt hvort við hefðum átt að fylgja Norðmönnum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir. „Mannúðarkrísan er mikil. Mikilvægustu norrænu skilaboðin eru þau að það sé mikilvægt að veita mannúðaraðstoð.“

Ulf Kristersson minnti á að í sögulegu ljósi væri nokkur grundvallarmunur á afstöðu landanna ekki aðeins á vettvangi SÞ heldur einnig innan ESB.

Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði:

„Við erum ekki ósammála um mikilvægi mannúðaraðstoðar á Gaza. Það snertir okkur öll þegar við sjáum og heyrum um almenna borgara sem deyja, einkum börn. Í SÞ-ályktunina vantaði greinilega fordæmingu á hryðjuverkaárás Hamas og rétt Ísraela til sjálfsvarnar innan ramma alþjóðalaga.“

Jonas Gahr Støre sagði að aldrei hefði komið annað til greina en fulltrúi Noregs tæki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Þá segir altinget.no að Íslendingur í hópi blaðamanna hafi ekki viljað láta málinu lokið heldur spurt hvort það fælust ekki í því röng skilaboð „þegar norrænu ríkin standa ekki saman og greiða ekki atkvæði eins um mikilvæg alþjóðamál“

„Hvert einstakt ríki ber sjálft ábyrgð á því hvernig það greiðir atkvæði,“ sagði Støre. „Við teljum að það hafi þýðingu að norrænu ríkin standi saman. Við erum ekki ósammála um að fordæma hryðjuverkaárásina frá Hamas.“

Jonas Gahr Støre tók spurningu íslenska blaðamannsins sem gagnrýni á sig. Þá sem þekkja flutning frétta hér grunar að spjótin hafi frekar beinst að þeim fjórum sem vildu að SÞ fordæmdi Hamas í ályktun sinni og greiddu því ekki atkvæði.