1.8.2017 10:14

Stóra kjólamálið í þingsalnum

Þær stöllur hefðu átt að bera saman bækur sínar áður en tekið var til við að skýra ástæðuna fyrir dómgreindarleysi þeirra beggja.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri alþingis, fékk fyrir helgi senda mynd frá Fréttablaðinu þar sem sjá mátti Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, eins og sýningarstúlku í tískukjól fyrir framan ræðustólinn í þingsalnum með íslenska fánann við hægri öxl.

Eftir að Fréttablaðið birti frétt um málið mánudaginn 31. júlí sagði Helgi að hann hefði haldið að um „fótósjoppaða“ mynd hefði verið að ræða. Á mbl.is segir um hádegisbil mánudaginn 31. júlí:

1A2D73FAD7FE771D548BF7FA6362CA2FBDC069504EA25B5FE7E485B5EA07A9D7_713x0Myndin umdeilda.

„Fyrst hélt Helgi að myndin hafi verið sett saman í tölvu, sérstaklega vegna þess salur Alþingis hefur verið lokaður undanfarnar vikur vegna viðhaldsframkvæmda á gólfi í Skálanum. Hann hefur núna verið opnaður aftur.“

Þá segir Helgi við mbl.is:

„Ég get ekki meinað þingmanni að fara inn í þingsalinn, hvernig svo sem hann er á sig kominn eða búinn, en hitt er augljóst mál að þessi myndataka er í einhverjum undarlegum tilgangi, sem er óskyldur þingstörfunum. Það þykir mér ósköp leiðinlegt.... Almennt er ekki gert ráð fyrir því að þingmenn hafi salinn til einkanota, eins og til dæmis að mynda sig fyrir prófkjörsauglýsingar og þess háttar. Það hefur ekki verið þannig og það hafa allir verið sáttir við það, og skilið að annars fer í óefni.... Fólk áttar sig, held ég, ekki alltaf á því að þingsalurinn er ekki bara vinnuaðstaða. Hann er þjóðarsalur sem þjóðin telur sig eiga sameiginlega, og menn sem starfa á þingi mega ekki fara með hann eins og þeir vilja sjálfir.“

Á mbl.is segir einnig:

„Myndin var notuð í auglýsingaskyni fyrir breska tískuvörumerkið Galvan London. Sólveig Káradóttir, listrænn stjórnandi vörumerkisins, er vinkona Bjartar.“

Myndin birtist á Instagram-síðum Bjartar og Galvan en var fjarlægð af síðu fyrirtækisins mánudaginn 31. maí.

Fyrst ætlaði umhverfisráðherra að snúa sig út úr málinu með næsta yfirlætisfullri færslu á FB-síðu sína en sá að sér um miðjan dag 31. maí og sagði:

„Stóra kjólamálið er orðið dálítið mikið um sig. Ég viðurkenni það fúslega að mín fyrstu viðbrögð við því voru einmitt það- mjög viðbragðs og tilfinningatengd. Það getur pirrað ráðherra eins og hvern annan að undirtónn um klæðaburð sé alltumlykjandi.

En hann skiptir hér ekki höfuðmáli.

Ég sýndi dómgreinarleysi með því að flögra um þingsalinn stolt af þeirri hönnun sem ég stóð í og stolt yfir að vera kona í því hlutverki sem ég er og að leyfa mér að upphefja kvennleikann inni í þingsal sem svo ljósmyndari festi á filmu. Þau skilaboð eru fólki greinilega ekki efst í huga, og þessi uppsettning því vanhugsuð því hún tengir við einkafyrirtæki.

Ég biðst innilegrar afsökunar á því að hafa misboðið fólki með því. Síst af öllu vildi ég það. En ég held áfram að læra.“

Um klukkan 19.00 mánudaginn 31. júlí birtist „árétting“ vegna kjólamálsins á mbl.is frá ljósmyndaranum Sólveigu Káradóttur, vinkonu ráðherrans. Þar segir:

„Til áréttingar:

Fyrir nokkrum árum stofnaði ég ásamt vinkonum mínum tveimur tískufyrirtæki sem heitir GalvanLondon sem hannar og býr til fínan klæðnað á konur. Vörur frá fyrirtækinu eru nú í um það bil 70 þekktustu tískuvöruverslunum heims og myndir af frægum konum beggja vegna Atlantshafsins klæddar í fötin okkar birtast reglulega í heimspressunni. Þegar við Björt Ólafsdóttir vinkona mín og ráðherra létum taka af henni myndir í einum af kjólunum okkar í salarkynnum Alþingis var hugmyndin aldrei sú að nota þær til þess að selja kjóla út í hinum stóra heimi vegna þess að þrátt fyrir ótrúlega mikla verðleika hefur hún líklega ekki það til að bera sem selur kjóla utan Íslands sem er ekki á markaðssvæði GalvanLondon.

Hugmyndin var að sýna heiminum íslenska konu sem sameinar það að vera ung og falleg og glæsileg og sterk og gáfuð og kjarkmikil, sýna heiminum konu sem hefur sýnt langt nef þeim karlrembukúltúr sem ríður röftum í íslenskum stjórnmálum. Hugmyndin var sú að nota GalvanLondon til þess að þjóna íslenskum konum, ekki íslenska konu til þess að  þjóna GalvanLondon, með því að sýna heiminum hvernig íslenskar konur geta risið til valda í okkar kyrkingslegu stjórnmálum þrátt fyrir æsku og fegurð.

Sólveig Káradóttir“

Í þessari „áréttingu“ segir að þrátt fyrir snilli umhverfisráðherra og „ótrúlega mikla verðleika“ dugi hún ekki til að selja kjóla utan Íslands, þess vegna sé þetta ekki kjólaauglýsing heldur sé myndin til marks um að Björt hafi „ sýnt langt nef þeim karlrembukúltúr sem ríður röftum í íslenskum stjórnmálum“ það er „okkar kyrkingslegu stjórnmálum“.

Þetta segir Sólveig eftir að sjálf fyrirsætan segir að uppsetning hennar í þingsalnum hafi verið „vanhugsuð því hún tengir við einkafyrirtæki“.

Sólveig Káradóttir vill reyna að afsaka misnotkunina á þingsalnum, þjóðarsalnum, með því að breyta tískumynd í pólitíska yfirlýsingu gegn þeim sem ganga til starfa í salnum.

Þær stöllur hefðu átt að bera saman bækur sínar áður en tekið var til við að skýra ástæðuna fyrir dómgreindarleysi þeirra beggja.

Svo að notað sé tískuorðalag þá „loga samfélagsmiðlar“ vegna málsins og sýnist sitt hverjum.

Í Fréttablaðinu er þriðjudaginn 1. ágúst rætt við Jón Ólafsson prófessor og formann félags gegn spillingu, Gagnsæi. Hann nefnir að þegar slík mál koma upp í nágrannalöndunum nægi klaufagangur sem þessi til afsagnar og segir:

„Grundvallarspurningin er: Hvers á almenningur að vænta frá kjörnum fulltrúum? Það er sama hvað ráðherra eða þingmaður gerir, fólk verður alltaf að hafa í huga að það sé ekki að hygla einhverjum sérstökum. Það verður að tryggja að enginn geti sakað það um að það starfi fyrir einhvern annan en almenning. Þetta er grundvallarprinsipp. Ráðherra getur ekki leyft sér að hjálpa vinum sínum með störfum sínum sem ráðherra. Þarna er þingmaður og ráðherra að láta taka mynd af sér í þingsalnum til að hjálpa ákveðnum aðila.“