14.11.2020 11:39

Stofnun föst í 90 ára fari

Enn er ríkisútvarpið starfrækt en ríkið stofnaði viðtækjaverslunina samhliða því til að hafa örugglega tök á þessari nýbreytni og útiloka aðra frá því að nýta sér tæknina.

Á alfræðiritinu Wikipediu í netheimum má lesa:

„Viðtækjaverslun ríkisins var heildsala í Reykjavík sem hafði einkasölu á útvörpum á Íslandi. Viðtækjaverslunin var stofnsett árið 1930, samhliða tilkomu Ríkisútvarpsins. Viðtækjaverslunin var aðeins með útibú í Reykjavík, en samdi við menn eða félög út á landi um að hafa á hendi smásölu á tækjunum. Verslunin hafði fyrst tvær tegundir útvarpa á boðstólnum: Philips og Telefunken. Hún var lögð niður árið 1967. “

Textinn sýnir að í 37 ár, langt fram í stjórnartíð viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (1959-1971) taldi ríkið sér nauðsyn að reka þessa verslun, arfleifð frá haftatímanum sem hófst 1930 og lauk í raun ekki fyrr en með samningum vegna aðildarinnar að EES um 60 árum síðar.

TelefunkenJubileeFrontGamalt Terlefunken-útvarpstæki eins og kaupa mátti í Viðtækjaverslun ríkisins þegar hún starfaði við hlið ríkisútvarpsins – versluninni var lokað en ríkisútvarpsstöðin starfar áfram.

Enn er ríkisútvarpið starfrækt en ríkið stofnaði viðtækjaverslunina samhliða því til að hafa örugglega tök á þessari nýbreytni og útiloka aðra frá því að nýta sér tæknina. Sat ríkisútvarpið eitt að útvarpsrekstri fram um miðjan níunda áratuginn þegar verkfall fréttamanna þess leiddi í ljós að miðla mátti fréttum á öldum ljósvakans án þess að ríkisstarfsmenn stæðu þar að baki.

Frá því að ríkiseinokunin á útvarpsrekstri var afnumin hefur tónninn frá ríkisútvarpinu jafnan verið að það ætti undir högg að sækja og gæti ekki sinnt menningarhlutverki sínu eða gætt öryggis og almannavarna sem skyldi vegna fjárskorts.

Nú eru ríkisútvarpinu tryggðir milli sex og sjö milljarðar í tekjur á ári en samt kvarta stjórnendur þess og beita ýmsum brögðum við bókhald og framkvæmd þjónustusamnings við ríkið til að afla sér tekna auk þess sem ríkisútvarpið er háð borgarsjóði vegna útleigu á húsnæði til borgarinnar.

Ríkisútvarpið er alls ekki lífsnauðsynlegt lengur til að miðla upplýsingum á hættustund. Allt önnur sjónarmið gilda í því efni nú en fyrir fáeinum árum auk þess sem einkareknir aðilar ráða yfir mun öflugri búnaði til slíkra boðflutninga en ríkisútvarpið, að styrkja það vegna almannavarna veikir ef til vill frekar öryggiskerfið en styrkir. Menningarlega framlagið er allt annað en áður og metnaður í því efni hefur ekki aukist. Ríkisútvarpið nær helst til almennings vegna aðildar að evrópsku söngvakeppninni.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 11. nóvember:

„Síðustu 12 ár hafa skattgreiðendur látið ríkismiðlinum í té nær 46 milljarða króna á föstu verðlagi. Auglýsingatekjur, kostun og annar samkeppnisrekstur hefur skilað fyrirtækinu tæpum 24 milljörðum króna. Alls hefur Ríkisútvarpið því haft upp undir 70 milljarða úr að moða. Þá er ekki tekið tillit til beinna fjárframlaga úr ríkissjóði til að rétta af fjárhagsstöðu fyrirtækisins eða sérkennilegrar lóðasölu við Efstaleiti.“

Að láta þessa dýru starfsemi viðgangast á þann hátt sem gert er enn þann dag í dag eins og ekkert hafi breyst í rekstrarumhverfi hennar á 90 árum annað en brotthvarf Viðtækjaverslunar ríkisins sýnir ótrúlega íhaldssemi án virðingar fyrir hagkvæmni og svigrúmi í þágu einkaframtaks.