8.3.2024 9:56

Stöðugleikasamningur í höfn

Hitt ræður úrslitum að skynsamlega sé samið á milli aðila vinnumarkaðarins og þar séu forystumenn sáttir þegar upp er staðið að loknum löngum og ströngum fundum mánuðum saman.

Það ber hátt í umræðum um stöðugleikasamninginn, kjarasamning til fjögurra ára ( til 31. janúar 2028) sem fulltrúar milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasambandsins (SGS), Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði – rituðu undir í gær (7. mars) hjá ríkissáttasemjara, að ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi sameiginlega lagt fram aðgerðir til að greiða fyrir samningnum.

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að aðgerðirnar styðji við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Heildarumfang aðgerðanna sé allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. Aðgerðirnar auki ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem skattgreiðendur koma að því í gegnum ríkissjóð og sveitarsjóði að stuðla að lausn kjaramála. Hitt ræður þó úrslitum að skynsamlega sé samið á milli aðila vinnumarkaðarins og þar séu forystumenn sáttir þegar upp er staðið að loknum löngum og ströngum fundum mánuðum saman.

1476247Sigríður Margrét Oddsdóttir (til vinstri) við samningaborðið í dag ásamt Ástráði Haraldssyni, Vilhjálmi Birgissyni, Sólveigu Önnu Jónsdóttur og fleirum. (Mynd: mbls.is/ Eggert Jóhannesson.) 

Aðilar vísuðu viðræðum sínum til ríkissáttasemjara 24. janúar 2024. Í tilkynningu á vefsíðu SA 18. janúar sagði að SA og breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði hefði „undanfarið unnið að því hörðum höndum í sameiginlegu átaki að skapa skilyrði fyrir langtíma kjarasamningum [með] það meginmarkmið að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu“.

Þegar ritað hafði verið undir samninginn sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA: „Þessi kjarasamningur markar tímamót og verður stefnumarkandi fyrir framhaldið.“ Nú skiptir miklu að við þetta markmið verði staðið, að þetta samflot SA og breiðfylkingar stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðinum dugi sem brimbrjótur í mikilvægri viðleitni við að skapa hér fyrirsjáanleika til langs tíma og þann stöðugleika sem því fylgir. SA ræður miklu um það og ekki þjónar það hagsmunum opinberra starfsmanna að grafa undan því góða sem fyrir liggur.

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness, sagði við mbl.is eftir að samningurinn hafði verið undirritaður: „Ég er því mjög stoltur af mínu fólki og þeim sem hafa staðið að þessari breiðfylkingu. Ég er mjög ánægður og stoltur af því sem við höfum verið að gera.“ Fyrir lægi tímamótasamningur reistur á meginmarkmiðunum um að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Í byrjun desember 2022 beitti Vilhjálmur sér fyrir kjarasamningi til skamms tíma með það að markmiði að búa í haginn fyrir samning til lengri tíma. Það markmið hefur svo sannarlega náðst, kjarasamningar til fjögurra ára eru sjaldséðir hér á landi. „Minnið er ekki alltaf langt en þetta er einhver lengsti samningur sem ég man eftir og er ég búinn að vera í þessum kjarasamningum lengur en margur annar,“ sagði Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík, við mbl.is.

Á mbl.is var einnig rætt við Ástráð Haraldsson ríkissáttasemjara sem sagði: „Mér er nær að halda að þetta geti verið fyrirboði um að við náum að þroska nýjar venjur við kjarasamningsgerð og ýmislegt fleira bendir til þess að við séum að færast í þá átt. Ég vona bara að það haldi áfram.“

Allt er þetta sem sagt á jákvæðum nótum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ákvað að hlaupa út úr breiðfylkingunni þegar sá til lands í samningaviðræðunum. Hann hótar verkfallstruflun á umferð um Keflavíkurflugvöll vegna sérkrafna þar. Aðför að starfsöryggi annarra félagsmanna VR með því að beita verkfallsvopninu á þennan hátt er í samræmi við fyrri óvild formannsins í garð Icelandair.

Í ljós kemur hvernig stjórnarandstaðan bregst við stöðugleikasamningnum. Hún hefur fullyrt mánuðum saman að engin stjórn sé á efnahagsmálum, kjarasamningar muni ekki takast og ríkissjóður sé hriplekt rekald. Nú þarf stjórnarandstaðan að sanna að hún hafi haft rétt fyrir sér. Gerviforsendur leiða að vísu til gervilausna og haldlausra yfirlýsinga.