7.2.2019 9:27

Stjórnun fiskveiða og ferðamennsku

Áður fyrr voru það aflatölur og spá um afla sem ollu sveiflum í hagstjórninni samhliða samningum um kaup og kjör, nú eru það tölur um fjölda ferðamanna.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri varaði miðvikudaginn 6. febrúar við verkföllum og óhóflegum launahækkunum í yfirstandandi kjaraviðræðum þegar skýrt var frá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um óbreytta stýrivexti.

„Nú slaknar á spennu í þjóðarbúskapnum en það er ekki samdráttur fram undan nema að við verðum fyrir nýjum áföllum. Verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm yrðu slíkt áfall. Afleiðingin yrði hærri vextir og meira atvinnuleysi. Reynum að forðast það,“ sagði seðlabankastjórinn.

Verði innistæðulausir kjarasamningar niðurstaða viðræðna aðila vinnumarkaðarins grafa þeir sína eigin gröf, hvort heldur atvinnurekendur eða verkalýðsrekendur. Ekki nóg með það, þeir draga allt þjóðarbúið niður í hana með sér.

Growth

Áður fyrr voru það aflatölur og spá um afla sem ollu sveiflum í hagstjórninni samhliða samningum um kaup og kjör, nú eru það tölur um fjölda ferðamanna sem komið hafa eða spáð er að komi sem valda sveiflunum fyrir utan kjarasamningana.

Með því að grípa til fiskveiðistjórnunar tókst í senn að verja fiskistofna fyrir óhóflegri ágengni og tryggja betri og hagkvæmari nýtingu þeirra. Rifist hefur verið um þetta kerfi áratugum saman þrátt fyrir ágóðann sem það hefur skilað í þjóðarbúið. Misheppnaðasta stóratlagan að því var gerð undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur á árunum 2009 til 2013.

Í tilefni af því að Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, fer á eftirlaun var rætt við hann í Morgunblaðinu miðvikudaginn 6. febrúar. Hann sagði meðal annars:

„Íslenskur ferðamannaiðnaður í dag minnir mjög á íslenskar fiskveiðar eins og þær voru fyrir 50-100 árum. Það eru mjög mörg fyrirtæki um hituna, og þau sækja í takmarkaðar náttúruauðlindir, sem eru íslenskt landslag og náttúruperlur af ýmsu tagi, án tillits til þess skaða sem þau valda á þessum náttúrugæðum og þess óhagræðis sem þeirra eigin sala veldur öðrum fyrirtækjum og ferðamönnum á vegum annarra fyrirtækja. Afleiðingin er raunverulega sú sama og við sáum í sjávarútveginum, ofsókn og ofnýting á þessum takmörkuðu náttúruauðlindum. Við þurfum að taka upp kerfi á Íslandi, nokkurs konar ferðamennskustjórnun, sem skapar hvata til þess að ferðaiðnaðurinn hámarki hinn þjóðhagslega ávinning sem Íslendingar hafa af þessari ferðamennsku.“

Þarna birtist skoðun reist á reynslu og rannsóknum. Skyldi verða tekið mark á henni? Skyldu þeir sem semja um kaup og kjör taka mið af reynslunni? Það er ekki náttúrulögmál að allt fari úr skorðum í þjóðfélaginu heldur afleiðing mannlegra ákvarðana.