19.9.2017 11:52

Stjórnsýsludósent áréttar samsæriskenningar

Dósentinn kennir það við „leka“ að ráðherra ræði við forsætisráðherra. Þetta er greinilega „illkynja leki“ að mati dósentsins. Sé lekinn „góðkynja“ að mati „góða fólksins“ er honum fagnað.

Nú hefur ríkisútvarpið kallað Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðing, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, á vettvang til að ræða uppreist æru og afgreiðslu á þeim málum innan stjórnarráðsins.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur látið hjá líða að afgreiða tillögu um uppreist æru sem liggur á borði hennar. Ráðherrann hefur látið tillöguna liggja síðan í maí 2017 áður en umræður um gildandi lög og þá einstaklinga sem sótt hafa rétt vegna þeirra urðu að pólitísku viðfangsefni. Það varð ekki fyrr en 15. júní, eftir að hæstiréttur hafði úrskurðað að Robert Downey gæti fengið lögmannsréttindi að nýju. Ráðherrann fól embættismönnum að semja frumvarp um breytingu á ákvæðum laga um uppreist æru.

Í frásögn af samtalinu á rás 2 við Sigurbjörgu sem birtist á ruv.is kemur ekki fram að minnst hafi verið einu orði á afstöðu dómsmálaráðherra til uppreistar æru eða frumkvæði hennar til breytinga á lögum og reglum um þessi mál. Í raun skiptir það mestu úr því sem komið er því að fortíðinni verður ekki breytt og þótt Sigurbjörg og aðrir telji að ekki hafi verið gætt allra formreglna við ívilnandi ákvarðanir fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli hefur ekki verið bent á eitt dæmi um að réttur hafi verið brotinn á neinum í ljósi gildandi laga, eftir þeim starfar stjórnsýslan. Raunar hefði mátt ætla að stjórnsýslufræðingurinn fjallaði um hvort ráðherra sé fært í krafti jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna að láta tillögu um uppreist æru liggja óafgreidda á borðinu hjá sér og hve lengi.

Sigurbjörg hefur líklega ekki verið spurð á þennan veg enda fellur það ekki innan rammans sem ríkisútvarpið hefur sett sér í umræðunum um þetta mál, hann er í raun gamaldags eins og lagaákvæðin um uppreist æru. Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að lofta út vegna lagaákvæðanna en enginn loftar út við Efstaleitið enda starfa þar áhrifamenn sem fara ekki leynt með óvild sína á Sjálfstæðisflokknum, á henni skal nú alið af meiri þunga en áður.

Sigurbjörg var fengin í viðtalið að þessu sinni til að halda lífi í þeirri arfavitlausu kenningu að ráðherra í ríkisstjórn geti ekki rætt mál við forsætisráðherra án þess að öðrum ráðherrum sé gert viðvart um umræðuefnið. Hún kennir það við „leka“ að slík samtöl fari fram. Þetta er greinilega „illkynja leki“ að mati dósentsins. Sé lekinn „góðkynja“ að mati „góða fólksins“ er honum fagnað. Því eru greinilega engin takmörk sett hve langt sumir fræðimenn við Háskóla Íslands ganga til að ýta undir ranghugmyndir í flokkspólitískum tilgangi.

Í grein í Morgunblaðinu mánudaginn 18. september segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra:

„Allt þar til í síðustu viku hef ég ekki séð gögn í nokkru máli er lýtur að uppreist æru og afgreidd hafa verið í ráðuneytinu fyrir mína tíð, utan frumrits tillögu til forseta Íslands í máli Róberts Downey. Ég óskaði aldrei eftir því og hafði ekki nokkurn hug á að setja mig inn í einstakar embættisfærslur forvera minna. Hinn 21. júlí var ég hins vegar upplýst um það af ráðuneytisstjóra, án þess að hafa eftir því leitað, að við skoðun eldri gagna hefði komið í ljós að meðal umsagna í einu máli sem afgreitt hafði verið sama dag og umsókn Róberts, hafi verið umsögn föður forsætisráðherra. Vikurnar á undan, í tengslum við mál Róberts Downey, höfðu verið sagðar misvísandi fréttir af því að forsætisráðherra, sem þá var fjármálaráðherra, hafi á einhvern hátt haft aðkomu að afgreiðslu málsins. Ég hafði ekki látið þær fréttir mig nokkru varða enda fyrir mína tíð í embætti.

Allt að einu, í ljósi þessara fjölskyldutengsla ráðherrans við einn umsagnaraðila taldi ég rétt að ræða þetta við forsætisráðherra. Hann kom af fjöllum. Síðar var það staðfest að forsætisráðherra hafði alls ekki gegnt stöðu innanríkisráðherra við afgreiðslu málsins í september 2016. Hann sat hins vegar ríkisstjórnarfundinn sem afgreiddi málið til forseta.

Ákvörðun um uppreist æru fer frá ráðuneyti inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta kynnt sér þau skjöl sem búa þar að baki. Efni þeirra skjala er því ekki trúnaðarmál fyrir þeim, hvað þá forsætisráðherranum sjálfum. Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma. Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráðherra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun.“

Af frásögninni á ruv.is af samtalinu við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur á rás 2 má ráða að hún hafi siglt fram hjá þessum staðreyndum málsins en lagt út af einhverri mynd sem ekki á neina stoð í veruleikanum. Ímyndanir og samsæriskenningar einkenndu útlistanir Sigurbjargar á hruninu á sínum tíma. Hún er enn í sama farinu og gerir dómsmálaráðherra upp þá skoðun að hafa rætt við forsætisráðherra af ótta við að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skyldaði ráðuneytið til að láta fjölmiðlum í té gögn að baki ákvörðunum um uppreist æru. Ekkert er hæft í þessum getsökum Sigurbjargar. Þær eru liður í samsæriskenningunni um að ráðuneytið hafi ætlað að beita þöggun þegar það beitti góðum stjórnsýsluháttum til að hafa lögmæta heimild til að senda frá sér upplýsingar sem snerta tugi manna eins og í ljós hefur komið.