15.5.2017 10:29

Stjórnsýsla í molum bitnar á borgurunum

Borgaryfirvöld höfðu þessar ábendingar rýnihópsins að engu enda fylgja þau stefnu Hjálmars Sveinssonar, formanns skipulagsráðs, um að ekki þurfi fleiri akgreinar af því að þær fyllist hvort sem er af bílum.

Við lestur Morgunblaðsins í morgun staldraði ég við nokkrar fréttir sem sýna að opinber þjónusta eða stjórnsýsla stenst ekki frumkröfur:

Drasl við grenndarstöðvar

Húsgögn, garðaúrgangur, útileikföng og gömul klósett eru meðal þess úrgangs sem fólk kemur með á grenndarstöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Á þessu ber alltaf öðru hvoru og okkur finnst þetta mjög leiðinlegt. Umgengni fólks er yfirleitt til fyrirmyndar og við skulum ætla að þetta sé aðeins hugsunarleysi,“ segir Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg.

964529Myndin er tekin úr Morgunblaðinu í morgun. Hún frá stöð sem blasir við gestum Kjarvalsstaða á Miklatúni.

Myndin sem birtist með fréttinni bendir til þess að gámarnir séu fullir. Af hverju skyldi ekki staðið betur að umgengni á vegum borgaryfirvalda? Er réttmætt að skella skuldinni á þá sem nýta sér ófullnægjandi þjónustu? Þegar kannað er í Þýskalandi hvers vegna jafnaðarmenn töpuðu svo miklu fylgi í sambandslandinu Nordrhein-Westfalen sunnudaginn 14. maí kemur í ljós það var ekki síst vegna þess hve illa hefur verið staðið að sorphirðu og samgöngumálum. Þetta einkennir einnig vinstri stjórnina í Reykjavík.

Bílkaupendur brjálaðir

„Þetta þýðir bara aukinn kostnað fyrir innflytjendur bílanna og viðskiptavinir bílaumboðanna hafa eðlilega ekki mikinn skilning á þessum töfum. Allir í þessum bransa eru eiginlega orðnir brjálaðir út af þessu. Á meðan Umferðarstofa var með skráningarnar var þetta í mjög góðu horfi en eftir að Samgöngustofa varð til hefur þetta ekkert gengið,“segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Samgöngustofa hefur ekki haft undan við að forskrá öll þau ökutæki sem flutt eru inn til landsins. Eru dæmi um allt að mánaðarbið eftir skráningu ökutækja. Innflutningur hefur aukist um tugi prósenta á síðustu árum. Samgöngustofa ber við fjárskorti.

Afsökun Samgöngustofu er ekki trúverðug. Fyrsta spurningin er auðvitað þessi: Ef einkaaðilar hafa heimild til að skoða bifreiðar, af hverju fá þeir ekki heimild til að skrá þær?

Ólöglegt innviðagjald

Samtök iðnaðarins hafa efasemdir um lögmæti innviðagjalda. Slík gjöld eigi sér líklega ekki lagastoð. Þetta segir Árni Jóhannsson, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins. „Við höfum efasemdir um að slík gjaldtaka sé heimiluð í lögum,“ segir Árni.

Innviðagjöld bætast við lóðarverð. Þau eiga að mæta kostnaði við uppbyggingu innviða, til dæmis skóla. Árni segir dæmi um að innviðagjöld séu 15-25 þúsund krónur á fermetra. Það samsvarar 1,5-2,5 milljónum á 100 fermetra íbúð.

Árni Jóhannsson kveður ekki nógu fast að orði um þessa gjaldtöku. Hennar er hvergi getið í lögum. Innheimta innviðagjalds var liður í samningi Reykjavíkurborgar við félag Ólafs Ólafssonar í Samskipum um byggingar við Elliðavog. Stóru verktakarnir semja um að greiða slíkt fyrirgreiðslugjald og leggja það síðan á þá sem kaupa af þeim húseignir. Nú dreymir sveitarstjórnarmenn um að þetta nýja gjald standi undir tugum milljarða vegna gæluverkefnis þeirra, borgarlínunnar.

Ofríki við Miklubraut

Sérstakur rýnihópur sem fór yfir öryggismál fyrirhugaðra framkvæmda á Miklubraut á milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs, lagði til að leitað yrði allra leiða til að tryggja tvær akreinar í hvora átt á framkvæmdatímanum.

Bent var á að mögulegt væri að hafa tvær þrengri akreinar þar sem meginhluti umferðarinnar gæti farið í tveimur rásum. Jafnframt lagði hópurinn til að hámarkshraði yrði lækkaður á framkvæmdasvæðinu enda tryggðu tvær akreinar betra umferðarflæði og öryggi um þessa meginstofnæð Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í pistli sem Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, ritar á vef félagsins.

Borgaryfirvöld höfðu þessar ábendingar rýnihópsins að engu enda fylgja þau stefnu Hjálmars Sveinssonar, formanns skipulagsráðs, um að ekki þurfi fleiri akgreinar af því að þær fyllist hvort sem er af bílum.

Áhættumati vegna lokunar neyðarbrautar ólokið

Formlegt leyfi fyrir lokun svonefndrar neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli hefur ekki verið gefið út af Samgöngustofu, enda hefur áhættumat viðvíkjandi lokuninni ekki verið gert.

Þetta kemur efnislega fram í svari stofnunarinnar til öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sem á fyrri stigum hafði óskað eftir því hvort áhætta vegna lokunarinnar hefði verið metin.

Að þetta mál skuli vera í þessari stöðu eftir allt sem á hefur gengið vegna flugvallarins er aðeins enn eitt dæmið um lélega stjórnsýslu við töku allra ákvarðana sem miða að því að grafa undan starfsemi á Reykjavíkurflugvelli.

 Bílaleigubílar blórabögglar

Þorsteinn Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir í skoðun að miða hámarkstíma í sumum bílastæðum í miðborginni við eina klukkustund. Herða eigi reglur vegna mikillar notkunar á bílaleigubílum.

Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, segir hækkun bílastæðagjalda í miðborginni ekki munu hafa tilætluð áhrif.

Steingrímur færir sannfærandi rök fyrir að bílaleigubílar taki ekki upp stæði í miðborginni um miðjan dag, þeir séu almennt leigðir til að aka út úr borginni en ekki til að láta bílana standa í stæðum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skoraðist undan að svara spurningum um málið og vísaði á undirmann sinn sem ekki hefur umboð frá kjósendum.

Niðurstaða

Hver er svo niðurstaðan? Það er greinilega brotalöm í stjórnsýslunni sem bitnar illilega á borgurunum. Það er ósannfærandi að það skorti fé til að koma málum til betri vegar. Endurskoða þarf vinnubrögðin.