11.1.2019 8:01

Stjórnmálavæðing Eflingar

Viðar Þorsteinsson hefur nú beitt sér fyrir að stofna „félagssvið“ Eflingar til að skapa samstarfsvettvang félagsins og Sósíalistaflokksins.

Þegar gengið er til kjarasamninga eins og annarra samninga tekst ekki vel til nema staðreyndir séu á hreinu. Sérkennilegt er hve lengi er unnt að deila um þær og hve hatrammar deilurnar geta orðið.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, víkur að þessu í grein í Morgunblaðinu, viðskiptablaði, fimmtudaginn 10. janúar.

Í upphafi nefnir hún fullyrðingar sem oft birtast um mikinn ójöfnuð hér á landi og að ávinningur „núverandi hagvaxtarskeiðs hafi fyrst og fremst runnið í vasa fjármagnseigenda en launþegar hafi setið eftir“. Afsanna megi þetta með því að fletta upp í gagnagrunni Hagstofu Íslands, OECD eða Hagstofu Evrópusambandsins, tölurnar eru skýrar:

„Á Íslandi ríkir einn mesti tekjujöfnuður innan OECD, meðallaun eru þau næsthæstu innan OECD og lágmarkslaun þau þriðju hæstu. [...] Launahlutfall á Íslandi er jafnframt það hæsta innan OECD – með öðrum orðum þá rennur hvergi stærri hluti virðisauka efnahagslífsins til launþega en á Íslandi.“

Index_1547029869360Að vera í fremstu röð að þessu leyti innan OECD er keppikefli allra þjóða. Þar eru 36 þróuðustu ríki heims. Sé Ísland undir meðaltali þar er jafnan hamrað á að gera þurfi betur. Enginn gagnrýnandi dregur þá í efa réttmæti talna sem birtar eru í nafni stofnunarinnar. Þegar kemur að tölum um tekjujöfnun og laun láta sumir eins og ekkert sé að marka þær. Að gera það í kjarabaráttu staðfestir aðeins skortinn á vilja til að hafa skynsamleg viðmið að leiðarljósi.

Hér hefur undanfarna daga verið vikið að stjórnmálavæðingu Eflingar stéttarfélags undir forystu sósíalistanna Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra sem stóð að stofnun Sósíalistaflokksins með Gunnari Smára Egilssyni og samdi meðal annars lög flokksins. Viðar hefur nú beitt sér fyrir að stofna „félagssvið“ Eflingar til að skapa samstarfsvettvang félagsins og Sósíalistaflokksins.

Í grein Ásdísar Kristjánsdóttur kemur fram að Gunnar Smári er tekinn til við að birta rangar upplýsingar um hagvöxt og raunlaunahækkanir hér á landi, upplýsingar reistar á spám TUC, verkalýðssambands í Bretlandi. Rauntölur segja aðra sögu en um þær hirðir Gunnar Smári ekki enda falla þær ekki að áróðursstarfinu sem hann vinnur í samstarfi við flokksfélaga sína í Eflingu.

Undir lok greinar sinnar segir Ásdís Kristjánsdóttir „sérstaklega mikilvægt að aðilar að kjaraviðræðunum og aðrir sem tjá sig um þróun lífsgæða Íslendinga reyni eftir fremsta megni að byggja á staðreyndum“. Að Gunnar Smári Egilsson fari að þeim ráðum í störfum fyrir flokk sinn og Eflingu er ólíklegt.