23.4.2025 10:29

Stjórnmálavædd söngvakeppni

Stjórnmálavæðing þessarar söngvakeppni hér er óskiljanleg þegar litið er á efni málsins. Hún veitir RÚV að vísu eitthvert skjól fyrir gagnrýni á heimavelli.

Forvitnilegt er að leita upplýsinga hjá vitvél um það hvaða ríki láti helst að sér kveða í andstöðu við þátttöku Ísraela í söngvakeppni Evrópu (Eurovison Song Contest).

Þar eru fyrst talin arabaríki eins og Líbanon og Sýrland. Í Líbanon er til dæmis bannað að senda út keppnina í sjónvarpi vegna þátttöku Ísraela. Þá er stjórn Palestínu nefnd til sögunnar og ýmsir hópar Palestínumanna. Framganga Ísraela og hernám þeirra á landsvæði Palestínumanna sé í andstöðu við þátttöku Ísraels.

Í þriðja lagi eru nefnd lönd þar sem starfi öflugar stuðningshreyfingar Palestínu eins og Írland og Noregur. Þá séu vinstrisinnar í ýmsum löndum gagnrýnir á þátttöku Ísraela og hvetji til þess að söngvakeppnin sé sniðgengin. Loks megi nefna Tyrkland til marks um land þaðan sem andi köldu í garð Ísraela vegna sögulegrar spennu í samskiptum ríkjanna.

Í lok samantektar í svari við spurningunni segir vitvélin miklvægt að hafa í huga að hvað sem líði gagnrýni einstakra ríkisstjórna eða stjórnmálahópa sé söngvakeppnin sjálf menningarlegur viðburður sem snúist um tónlist og skemmtun og margir þátttakendur og aðdáendur leggi áherslu á að allir séu velkomnir auk þess sem listræn tjáning sé hafin yfir stjórnmálaþrætur. Þá breytist ástandið frá ári til árs með hliðsjón af atburðum líðandi stundar og pólitísku ástandi.

Screenshot-2025-04-23-at-10.32.58

Í ár fer söngvakeppni Evrópu fram í Basel - hér sést sviðið þar.

Nú höfum við utanríkisráðherra hér, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (Viðreisn), sem hefur ákveðið að stjórnmálavæða umræður um söngvakeppnina. Hún sagði í samtali við Bylgjuna 22. apríl að henni þætti óeðlilegt að Ísrael fengi að taka þátt í Eurovision, og lýsti þeirri skoðun að henni þætti tilefni til að Ísland beitti sér á vettvangi Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) gegn þátttöku Ísraela. Hún teldi þó að Ísland eigi að vera með en ekki sniðganga keppnina.

Ríkisútvarpið (RÚV) kemur fram fyrir Íslands hönd vegna keppninnar. Fjölmiðlafulltrúi RÚV vegna keppninnar fagnaði afdráttarlausum ummælum ráðherrans. Ákvarðanir og skoðanir í þessu máli ættu „að vera svona hátt uppi hjá ráðuneytinu“ og þeir hefðu látið „EBU vita af þessu“.

Rætt var um málið við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra í Kastljósi sjónvarpsins 22. apríl. Hann sagði að það væri stjórnvalda að ákveða hvort Ísland sniðgengi Eurovision eða krefðist þess að Ísrael yrði meinuð þátttaka. Ákvörðunin væri þó í höndum Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva. „Það eru þing í hverju landi sem taka afstöðu til slíkra mála,“ sagði útvarpsstjóri um þátttökuna í Eurovision!

RÚV fagnar því að utanríkisráðherra vilji að Ísland haldi áfram í keppninni. Það eina sem Ísland getur gert til að sýna andstöðu við Ísrael er að segja sig frá keppninni. Það sem RÚV hefur tilkynnt til EBU er andstaða utanríkisráðherra við Ísrael en að hún og íslensk stjórnvöld vilji að þrátt fyrir hana verði Ísland með í keppninni.

Stjórnmálavæðing þessarar söngvakeppni hér er óskiljanleg þegar litið er á efni málsins. Hún veitir RÚV að vísu eitthvert skjól fyrir gagnrýni á heimavelli en breytir engu formlega fyrir RÚV út á við. Íslenskt ráðherranöldur hefur aðeins þau áhrif í stjórn EBU að tvölfeldni fulltrúa RÚV gerir hann hallærislegan.