18.8.2017 10:04

Stjórnmálalífið úr sumardvala

Stjórnmálalífið vaknar nú af sumardvala. Miðað við uppnámsástandið sem ríkt hefur í íslenskum stjórnmálum um langt árabil hefur þessi sumartími verið sérkennilega „ópólitískur“. 

Stjórnmálalífið vaknar nú af sumardvala. Miðað við uppnámsástandið sem ríkt hefur í íslenskum stjórnmálum um langt árabil hefur þessi sumartími verið sérkennilega „ópólitískur“. 

Ríkisstjórnin hafði ekki haldið bókaðan fund í 41 dag þegar hún kom saman föstudaginn 11. ágúst. Það er óvenjulega langur tími án slíkra funda. Á árum áður kom ríkisstjórnin að jafnaði saman einu sinni í viku yfir sumarmánuðina þótt stundum yrði fundarfall vegna fjarveru manna eða skorts á dagskrármálum.

Í júlí 2009 lék allt á reiðiskjálfi í stjórnmálunum þegar ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. þótti liggja lífið við að senda inn umsókn um ESB-aðild á meðan Svíar sætu í forsæti ráðherraráðs ESB.

Það er til marks um pólitískt óheillaverk sem vinna má þegar eðlilegt er að stjórnmálamenn fari sér hægt. Hraðinn við það réðst af þeirri blekkingu að ekki tæki nema fáeina mánuði að tryggja Íslendingum sess innan ESB enda stæðu menn þar með opinn faðminn. Annað kom í ljós og hófst þá ljótasti kaflinn í sögu íslenskra utanríkismála frá því að lýðveldi var stofnað.

Miðað við skoðanakannanir hefur ríkisstjórninni ekki tekið að afla sér mikilla vinsælda, það er einnig deyfð yfir fylgi allra stjórnarflokkanna. Litlu flokkarnir, Viðreisn og Björt framtíð, verða sífellt minni. Tilraunir formanna þeirra til að klóra í bakkann eru næsta fálmkenndar og mætti ætla að dægurflugur eigi að verða flokkunum til bjargar.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, vekur athygli með því að vilja afnema réttinn til að fá uppreist æru. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, kemst í fréttir af því að hann ætlar að lesa gögn frá dómsmálaráðuneytinu um uppreisn æru. Það er talið nefndarmönnum Sjálfstæðisflokksins til álitshnekkis að láta hjá líða að lesa gögnin. Svo mikill trúnaður ríkir um efni þeirra að aðeins má lesa þau á fundi nefndarinnar. 

Hvar er mælt fyrir um að leynd skuli hvíla yfir nöfnum þeirra sem mæla með að einstaklingur fái uppreist æru? Hún er ekki veitt án þess að valinkunnir menn leggi þar lóð sitt á vogarskálarnar. Er það ekki hluti opinnar stjórnsýslu að birta slík gögn sé þess óskað? Er þjóðfélagið orðið þannig á tímum athugasemda á samfélagsmiðlum að nauðsynlegt sé að sporna við hatursorðræðu með þvi að innleiða nafnleynd við birtingu opinberra skjala? 

Vegna þess að stjórnmálamenn hverfa nú aftur að störfum sínum birtir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarnans, langa pólitíska fréttaskýringu í gær. Hún leiðir enn í ljós skortinn á raunverulegum átakamálum. 

Þórður Snær býr til skammaryrðið „kerfisvarnarflokkar“ og setur Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk undir þann hatt. Hann segir: „Staðan virðist vera þannig að tími tveggja flokka kerfisvarnarstjórnar þessara tveggja flokka sé liðinn.“

Engin skýring er gefin. Um hvaða kerfi er hann að tala? ESB-aðild? Fiskveiðistjórnun? Landbúnað? 

Vilji menn í raun losa um kerfi hér á landi er það á sviði opinbers rekstrar; brjóta upp opinber hlutafélög, ýta undir einkaframtak á öllum sviðum. Breytingar í þá veru eiga mestan hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins. Þar ættu menn að fyllast eldmóði gegn opinberri kerfisdýrkun vinstri flokkanna, réttnefndu kerfisvarnarflokkanna