Stjórnmálaleg svöðusár
Það eru víða opin svöðusár í stjórnmálum í upphafi nýs árs. Sár sem eru viðkvæm viðureignar og gróa kannski aldrei.
Í dag (11. janúar) ræðst hvaða stefnu málatilbúnaður gegn Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, tekur á Bandaríkjaþingi þar sem demókratar hafa nú öll ráð í hendi sér. Trump skilur við flokk repúblikana valdalausan í Washington og klofinn ofan í rót.
Fyrsta skref demókrata að fulltrúadeild
þingsins hvetur Mike Pence varaforseta til að beita sér fyrir afsögn forsetans með
ákvörðun ríkisstjórnar hans. Pence er í fallinn í ónáð hjá Trump vegna þess að
hann beitti sér ekki fyrir að þingið gripi fram fyrir kjósendur í forsetakosningunum
og vegna þess að Pence hefur þegið boð um að verða við embættistöku Joes Bidens
20. janúar. Trump afþakkaði boðið.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.
Verði Pence ekki á næstu 24 tímum við kröfunni um að beita sér gegn Trump innan ríkisstjórnarinnar (sem hann gerir örugglega ekki) er næsta skerf demókrata að fulltrúadeildin samþykki ákæru á hendur Trump sem síðan fari fyrir öldungadeildina til ákvörðunar um hvort kalla eigi hann fyrir „landsdóm“.
Hvort unnt sé að höfða slíkt mál gegn Bandaríkjaforseta eftir að hann hefur látið af völdum er óljóst. Hér ákvað alþingi að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra og landsdómur dæmdi í máli hans. Í Danmörku liggur nú fyrir lögfræðilegt álit um að ákæri þingið fyrrverandi ráðherra vegna brota á útlendingalögum séu meiri líkur en minni á sakfellingu. Markmið málaferla þingsins gegn Trump yrði að hindra hann frá frekari stjórnmálaþátttöku. Njóta ráð til þess vaxandi stuðnings innan flokks repúblikana, Trump hafi nú þegar gert meira en nóg til að sverta flokkinn. Líf flokksins kunni að ráðast af hvort unnt verði að halda Trump frá honum.
Sé litið okkur nær, til Skotlands, hófst þar fyrir helgi nýr kafli í illvígum átökum forystumanna Skoska þjóðarflokksins (SNP), Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands og flokksleiðtoga, og Alex Salmonds, forvera hennar.
Salmond sætti ákæru fyrir áreiti í garð fjölda kvenna en var sýknaður af dómara í Edinborg. Salmond fullyrðir að Sturgeon hafi ekki sagt skoska þinginu rétt frá aðgdraganda þess að hafin var rannsókn gegn honum vegna ásakana um áreitið.
Fréttir af þessum fullyrðingu Salmonds leiddu til þess að stjórnarndstöðuþingmenn í Skotlandi vilja að lögfræðingur sem rannsakar hvernig staðið var að málatilbúnaði gegn Salmond í skoska þinginu fái einnig umboð til að rannsaka þessar nýju fullyrðingar Salmonds og þá sérstaklega hvort Sturgeon hafi brotið siðareglur ráðherra með því að fara vísvitandi með rangt mál í þingræðu. Sé svo er talið að það leiði óhjákvæmilega til afsagnar Sturgeon.
John Swinney, vara-fyrsti ráðherra Skotlands, sem var í sjö ár fjármálaráðherra í stjórn Salmonds sagði sunnudaginn 10. janúar að „mjög viss“ um að Sturgeon mundi hrekja allar fullyrðingar Salmonds um að hún hefði farið rangt að þegar hún afgreiddi ásakanirnar á hendur Salmond.
Það eru víða opin svöðusár í stjórnmálum í upphafi nýs árs. Sár sem eru viðkvæm viðureignar og gróa kannski aldrei.