24.10.2023 10:07

Stjórnmálaítök landbúnaðar

Framtakið er til marks um að þeir skynji að rödd greinarinnar má sín ekki mikils á stjórnmálavettvangi. 

Í íslenskum landbúnaði er mun meiri gróska og nýsköpun en sést við fyrstu sýn. Hitt blasir einnig við að regluverkið í kringum landbúnaðinn heldur víða aftur af þeim sem vilja feta inn á nýjar brautir. Ítök bænda í stjórnmálalífinu hafa stórminnkað frá því sem áður var.

Bein áhrif atvinnulífsins í heild á stjórnmálavettvangi hafa einnig minnkað. Það birtist best þegar rætt er um fyrirsjáanlegan orkuskort. Regluverk hefur verið notað þar til að sporna gegn því að endurnýjanlegir orkugjafar séu virkjaðir. Að það skuli gert í nafni landverndar og loftslagsgæða sýnir í hvaða ógöngur unnt er að rata vegi öfgar þyngra en almenn skynsemi.

Screenshot-2023-10-24-at-10.06.10

Pólitísk ítök bænda eru víða um lönd mjög sterk. Þetta má meðal annars sjá af umræðum um breytingarnar í dönskum stjórnmálum þegar Jakob Ellemann-Jensen segir skilið við þau eins og hann tilkynnti í gær (23. okt.). Hann var formaður Venstre-flokksins sem klofnaði í þrennt undir hans forystu. Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi formaður, stofnaði Moderaterne 5. júní 2022 og 18 dögum síðar stofnaði Inger Støjberg, fyrrv. varaformaður Venstre, Danmarksdemokraterne og höfðaði sérstaklega til bænda innan Venstre.

Í Berlingske segir að örlög Ellemann-Jensens hafi ef til vill ráðist á sínum tíma þegar hann varð umhverfis- og matvælaráðherra og sagðist ætla að setja umhverfismál ofar matvælum. „Bændur muna. Og þeir muna lengi,“ er haft eftir bónda í Berlingske eftir að hann hlustaði á kveðjuræðu flokksformannsins. Honum hafi aldrei tekist að sannfæra bændur um að hann bæri hagsmuni þeirra fyrir brjósti. „Þeir hafa ekki trú á honum“ sagði þingmaður við blaðið.

Ungir bændur á Íslandi efna til fundar í Salnum í Kópavogi síðdegis fimmtudaginn 26. október til að minna á stöðu sína og íslensks landbúnaðar á líðandi stundu. Framtakið er til marks um að þeir skynji að rödd greinarinnar má sín ekki mikils á stjórnmálavettvangi. Um árabil hefur landbúnaður verið „talaður niður“ og gert lítið úr viðleitni til að efla hann. Úrtölumenn íslensks landbúnaðar telja mestu skipta að opna landið fyrir innfluttum landbúnaðarvörum.

Þegar heimsviðskipti trufluðust vegna heimsfaraldursins og síðan þegar Rússar stofnuðu fæðuöryggi í hættu með stríðsaðgerðum sínum í Úkraínu og á Svartahafi opnuðust augu fleiri en áður fyrir nauðsyn þess að þjóðin nyti fæðuöryggis. Það verður ekki tryggt nema með öflugum landbúnaði.

Íslendingar vilja að land þeirra sé allt í byggð. Til þess að svo sé er óhjákvæmilegt að tryggja byggðafestu. Það er gert á ýmsan hátt, til dæmis með lagningu ljósleiðara. Nú er að ljúka lagningu hans í Árneshrepp á Ströndum, síðasta sveitarfélagið sem hlaut styrk frá fjarskiptasjóði á grundvelli átaksverkefnisins Ísland ljóstengt.

Margt fleira má gera í þágu byggðafestu. Það felst ekki allt í fjárveitingum. Mestu skiptir að skapa lífvænleg skilyrði, að ekki sé í öðru orðinu talað fjálglega um björgun brotthættra byggða og hinu ríghaldið í reglurverk sem brýtur undan byggðum.