22.10.2021 10:08

Stjórnmálafræðingar endurmeta Íslandssöguna

Stjórnmálafræðingarnir segja að mikilvægi alþjóðasamskipta fyrir Íslendinga hafi verið vanmetið. Kostnaðurinn af samskiptum við útlendinga hafi verið ofmetinn.

Iceland‘s Shelter-Seeking Behavior – From Settlement to Republic heitir ný bók eftir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Þorstein Kristinsson, doktorsnema við Háskólann í Lundi og Tómas Joensen, verkefnisstjóra hjá Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki við HÍ. Bókin kemur út í ritröðinni Islandica hjá Cornell University Library í Bandaríkjunum.

Vegna útkomu bókarinnar efndi Rannsóknarsetur um smáríki við HÍ til málþings um alþjóðsamskipti Íslands frá landnámi til stofnunar lýðveldis í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 21. október Höfundar gerðu grein fyrir verkinu en tveir sagnfræðiprófessorar Ragnheiður Kristjánsdóttir og Viðar Pálsson auk fornleifaprófessorsins Steinunnar Kristjánsdóttur sögðu álit sitt á bókinni í pallborði.

Sagnfræðiprófessorinn Guðmundur Hálfdanarson stýrði málþinginu sem hófst á ræðu fyrrverandi prófessors í sagnfræði, Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Hann hafði sérstaklega orð á hve ánægjulegt væri að stjórnmálafræðingar færu inn á þetta svið, samskipti Íslendinga við erlendar þjóðir. Það hefði löngum verið viðfangsefni sagnfræðinga og þeir ef til vill litið á það sem „sitt mál“ á fræðasviðinu. Ragnheiður Kristjánsdóttir hrósaði bókarhöfundum fyrir hve víða þeir hefðu leitað fanga í greinum og bókum sagnfræðinga og dregið saman mikið efni þaðan við rannsóknir sínar. Heimildaskráin er 20 bls. í bókinni.

245031771_10161500425519478_8048042694796652888_nBaldur Þórhallsson sagðist hafa tekið til við þetta verk árið 2008 en það hafi verið unnið á árunum 2012 til 2018. Sagnfræðilegar heimildum að baki verkinu hefði fjölgað jafnt og þétt og nefndi hann þar sérstaklega verkið Líftaug landsins: Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010 sem kom út árið 2017. Þá benti Baldur á hve áherslur í ritun Íslandssögunnar fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum hefði breyst, áhersla á sjálfstæðisbaráttuna og sérstöðu Íslands minnkaði.

Stjórnmálafræðingarnir segja að mikilvægi alþjóðasamskipta fyrir Íslendinga hafi verið vanmetið. Kostnaðurinn af samskiptum við útlendinga hafi verið ofmetinn. Íslendingar hafi notið umfangsmikils pólitísks, efnahagslegs og samfélagslegs skjóls af samskiptum sínum við nágrannaríkin, kaþólsku kirkjuna og erlenda sæfara. Tengslin við umheiminn skýri samfélagsgerð og þróun efnahagsmála og stjórnmála hér á landi.

Ekkert af þessu kemur þeim í opna skjöldu sem velt hafa fyrir sér framvindu Íslandssögunnar í ljósi alþjóðlegra strauma. Viljinn til að gera það er hins vegar takmarkaður og þykir jafnvel enn nú á tímum stangast á við hagsmuni þjóðarinnar í bráð og lengd. Sjálfsprottinn metnaður og sókndirfska í krafti hans eigi og hefði ráðið ferðinni.

Í ræðu og riti hef ég árum saman boðað að Íslendingar eigi að fylgjast náið með alþjóðlegum straumum og virkja það sem nýtist þeim best. Af málþinginu dreg þá ályktun að í aldanna rás hafi það reynst þjóðinni vel. Mér hefur hins vegar fundist orðið „skjól“ of gildishlaðið í þessu samhengi. Fræðimönnum eru hugtök hins vegar nauðsynleg og kannski tekst Baldri Þórhallssyni ekki aðeins að leggja fræðilegan grunn að endurmati Íslendinga á stöðu sinni í umheiminum heldur einnig að breyta skilningi okkar á inntaki orðsins „skjól“.