15.11.2017 10:20

Stjórnmálaforingjar ráða för – ekki forseti Íslands

Hér hefur þeirri skoðun verið hreyft oftar en einu sinni að tal um að forseti Íslands veiti ekki þessum eða hinum umboð til stjórnarmyndunar feli ekki í sér rétta lýsingu á stöðu mála.

Katrín Björg Ríkharðsdóttir er nýskipuð í starf framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Í tilefni af því var rætt við hana í þættinum Morgunvaktinni á rás 1 ríkisútvarpsins í morgun (15. nóvember). Undir lok samtalsins sagði útvarpsmaðurinn réttilega að á alla kvarða mældust Íslendingar í fremstu röð þegar staða jafnréttismála væri mæld í heiminum. Hann bætti síðan við spurningu á þá leið hvort þetta gæti ekki verið hættulegt því að við gætum sofnað á verðinum. Jafnréttisstýran samsinnti því.

Þessi orðaskipti sýna hve vandlifað er sem frétta- eða þáttastjórnandi á ríkisútvarpinu þar sem jafnan er leitast við að draga upp dökka mynd af stöðu samfélagsmála og jafnvel telja það hættumerki ef staða þeirra mælist eins og best verður á kosið í samanburði við allar þjóðir heims.

 

Hér hefur verið bent á að með því að draga jafnan upp neikvæða hlið á málum höfði ríkisútvarpið til sérgreinds markhóps sem styður VG og Samfylkingu, megi marka kannanir. Nú þegar formaður VG á í viðræðum við formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um stjórnarmyndun lenda starfsmenn ríkisútvarpsins í vandræðum vegna ágreinings innan markhópsins.

Hér hefur þeirri skoðun verið hreyft oftar en einu sinni að tal um að forseti Íslands veiti ekki þessum eða hinum umboð til stjórnarmyndunar feli ekki í sér rétta lýsingu á stöðu mála.

Forsetinn var ekki í framboði heldur stjórnmálamennirnir. Þeir buðu sig fram til að veita þjóðinni pólitíska forystu á þingi og í ríkisstjórn. Þeirra verkefni er að mynda ríkisstjórn og telji þeir að best sé að því staðið án þess að nokkur þeirra hafi formlegt umboð frá forseta er eðlilegt að mál séu í þeim farvegi.

Forseti getur sett tímamörk og gefist stjórnmálamennirnir upp við verkefni sitt getur forseti að lokum skipað utanþingsstjórn sem situr eins lengi og meirihluti alþingis þolir hana.

Rætt var við Guðmund Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, um þetta atriði í fréttatíma ríkisútvarpsins þriðjudaginn 14. nóvember, á ruv.is er eftir honum haft:

„Það hver er með þetta umboð er ekki það sem skiptir öllu máli. Það eru flokkarnir sem tala sig saman um þetta og ein stjórn verður mynduð. Ein stjórn fær meirihluta og það er sá sem verður forsætisráðherra sem á endanum situr uppi með umboðið þannig að ég held að Guðni [Th. Jóhannesson forseti Íslands] líti bara þannig á málin að það sé kannski gert dáldið mikið úr þessu stjórnarmyndunarumboði, það sé ekki það sem skipti máli heldur vilji flokkanna til að vinna saman það er auðvitað það sem öllu máli skipti.“

Ástæða er til að taka undir þessi orð prófessorsins. Það er vilji stjórnmálaforingjanna en ekki forsetans sem skiptir öllu um niðurstöðu viðræðnanna um stjórnarmyndun.