29.9.2017 10:52

Stjórnmál óhjákvæmileika og eilífðar

Séu stjórnmál óhjákvæmileikans eins og dá eru stjórnmál eilífðarinnar eins og dáleiðsla, segir Timothy Snyder.

Í eftirmála bókar sinnar On Tyranny fjallar Timothy Snyder um söguna og frelsið.

Eftir hrun kommúnismans hafi sögunni verið ýtt til hliðar í stjórnmálaumræðum. Stjórnarhættir framíðar yrðu óhjákvæmilega frjálslynt lýðræði. Þetta kallar hann stjórnmál óhjákvæmileikans. Vegna þessa hefði árvekni okkar minnkað, ímyndunaraflið hefði dofnað og þar með hefði þeim verið auðvelduð leið til valda sem við vorum sannfærð um að næðu þeim aldrei aftur. Með því að tileinka sér þessi viðhorf falli menn í menningar- og þekkingarlegt dá. Þegar kommúnistar og kapítalistar börðust eða á meðan minningin um fasisma og nazisma var lifandi urðu menn að hafa söguna í huga og leggja rækt við kenningar sem gerðu þá færa um að greina á milli ólíkra framtíðarleiða. Með því að álykta að stjórnmál stefni óhjákvæmilega í eina átt þurfi menn ekki lengur að leita í smiðju sögunnar.

Snyder segir að til sé önnur and-söguleg leið til að skoða fortíðina, hann kallar hana stjórnmál eilífðarinnar. Þar beini menn athygli að fortíðinni án þess að láta sig staðreyndir nokkru varða. Þeir þrái augnablik úr fortíðinni sem aldrei gerðust á tímum sem voru í raun hörmulegir.

Snyder segir á einum stað:

„Í stjórnmálum eilífðarinnar gerir heillandi goðsagnaheimur fortíðar okkur ókleift að hugsa um það sem líklegt er að gerist í framtíðinni. Eftir að hafa vanið sig á hlutskipti fórnarlambsins er erfitt að rífa sig upp úr því. Þar sem þjóðin er skilgreind með vísan til göfugrar arfleifðar hennar frekar en tækifæra framtíðar snúast stjórnmálin um gott og illt frekar en um lausnir á raunverulegum vandamálum. Þar sem hættuástandið er viðvarandi ræður neyðartilfinningin alltaf ferðinni; að gera áætlanir um framtíðina virðist ómögulegt eða jafnvel sviksamlegt. Hvernig getum við yfirleitt hugsað um umbætur þegar óvinurinn er ávallt á næsta leiti?

Séu stjórnmál óhjákvæmileikans eins og dá eru stjórnmál eilífðarinnar eins og dáleiðsla: Við horfum á þeytispjald goðsagnanna snúast þar til við föllum í trans – og síðan gerum við eitthvað voðalegt að fyrirmælum annarra.“

Á ekki þessi boðskapur erindi til okkar Íslendinga þegar gengið er til þingkosninga í annað sinn á einu ári? Erum við ekki stödd á því stigi þar sem leitast er við að beina umræðum um stjórnmál í þann farveg að þær snúist um gott og illt frekar en lausnir á raunverulegum vandamálum? Það sem jafnvel enn verra er að þau snúist um það manni finnst vera frekar en það sem er.