10.12.2021 10:14

Stjórnarstefnan og öfluga RÚV

Það er sérkennilegt að ávallt þegar minnst er á almannaútvarp í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar birtist jafnframt lýsingarorðið „öflugt“. Ekki er gefin nein skýring á því.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að lögð verði áhersla á að styrkja starfræna færni fólks og getu til að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar. Þá einsetur ríkisstjórnin sér að Ísland verði meðal „allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu“. Stafrænar lausnir verði nýttar til að einfalda stjórnsýslu, bæta þjónustu við almenning og auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum.

Á þennan hátt er vikið að upplýsingatækninni sem gjörbylt hefur öllum samskiptum manna eins og sést nú best á því hvernig QR-kóðar, smáskilaboð, farsímar og tölvur stuðla að öryggi og snurðulausum samskiptum á farsóttartímum. Er í raun ævintýri líkast að fylgjast með þeirri framvindu allri.

Ein opinber stofnun situr eftir í stöðnuðu fari í þessari byltingu, ríkisútvarpið (RÚV).

Media-2Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar segir að staða einkarekinna fjölmiðla verði metin áður en núverandi stuðningskerfi rennur út, það er fyrir 31. desember 2022 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árin 2020 og 2021. Fyrir þann tíma verði ákveðnar aðgerðir „til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp“. Með lokaorðinu er vísað til RÚV.

Hér að ofan hefur verið vitnað til þess sem forsætisráðherra kallaði aðgerðaáætlun í stefnuskjali ríkisstjórnarinnar. Í stefnukafla skjalsins segir að frjálsir fjölmiðlar séu forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veiti stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Þá segir: „Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum.“

Það er sérkennilegt að ávallt þegar minnst er á almannaútvarp í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar birtist jafnframt lýsingarorðið „öflugt“. Ekki er gefin nein skýring á því hvers vegna þetta ér áréttað vegna RÚV en ekki einkarekinna fjölmiðla. Felst í þessu að efla beri RÚV eða þykir þeim á stjórnarheimilinu sérstök ástæða til að gefa RÚV þessa einkunn í virðingarskyni?

Sé það sem hér hefur verið sagt lesið saman má geta sér þess til að þeir sem sömdu skjalið átti sig á að dagar almannaútvarps í núverandi mynd eru taldir sé litið til tæknilegrar þróunar.

Augljóst er að markmiðinu um Íslendinga meðal „allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu“ verður ekki náð með því að nota nefskatt til að tryggja einum opinberum miðli sem reistur er á grundvelli gamallar tækni 5 milljarða króna opinbert forskot ár hvert. Að láta miðilinn síðan jafnframt keppa við einkarekna miðla á auglýsingamarkaði eykur aðeins á ójöfnuðinn og vinnur enn gegn markmiðinu um Íslendinga í hópi „allra fremstu þjóða“.

Það verður að gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um að hún geri skattgreiðendum grein fyrir hvað býr að baki orðunum „öflugt almannaútvarp“ og hvers vegna það er nauðsynlegt á tímum þegar kynnt eru til sögunnar nýjar og öflugri leiðir til að bæta þjónustu við almenning og auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum. Að ríkisstarfsmenn þurfi að framleiða efni fyrir nýju stafrænu samskiptaleiðirnar er átakanlegur misskilningur.