Stjórnarstefnan kynnt
Einmitt þetta gerir umræðurnar um stefnuræðu forsætisráðherra marklitlar, það er að ekki skuli brotið til mergjar það sem í henni segir heldur skautað yfir staðreyndir til að lýsa því sem andstæðingum stjórnarinnar finnst á hverjum tíma.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar á Alþingi að kvöldi miðvikudagsins 11. september. Í upphafi ræðunnar rifjaði hann upp að fyrir rúmum áratug hefðu aðilar vinnumarkaðarins hitt fulltrúa allra stjórnmálaflokka og stofnana í stjórnkerfinu á svonefndum vettvangi um aukna hagsæld. Þar hefði verið mótuð sú framtíðarsýn fyrir íslensku þjóðina að tvöfalda skyldi landsframleiðsluna frá 2012 til 2030. Þetta átti að tryggja að við gætum staðið jafnfætis þeim sem við vildum helst líkjast í samanburði, það er þeim þjóðum sem taldar eru standa fremstar í heiminum. Sagði Bjarni að nú árið 2024 værum við upp á punkt og prik á réttri leið. Þetta hefði gerst þrátt fyrir fjölda utanaðkomandi áfalla.
Forsætisráðherra benti á að kaupmáttur fólks á Íslandi hefði vaxið verulega á sama tíma og hann hefði dregist saman í kringum okkur. Kaupmáttur hér væri einfaldlega í sérflokki á Norðurlöndunum. Við hefðum bætt opinbera þjónustu, tekist á við skuldavanda heimila, fjárfest í innviðum, eflt almannatryggingar, aukið mikið hvata til nýsköpunar og stórlækkað skatta. Skattalækkanir frá 2013 næmu hátt í 90 milljörðum króna á ársgrundvelli.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur stefnuræðuna 11. september 2024 (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).
Enginn ræðumanna í umræðunum hrakti þessa lýsingu enda styðst hún við gögn sem má sannreyna. Stefnuræðan er kynnt þingmönnum áður en hún er flutt til að þeir hafi tækifæri til að fara í saumana á henni. Raunar þakkaði Inga Sæland sínu sæla fyrir að hafa haft tækifæri til að lesa ræðuna því að annars hefði hún líklega ekki mátt mæla af undrun yfir efni hennar, meðal annars þessari lýsingu sem er tilgreind hér að ofan.
Inga flutti gamalkunna ræðu sína um eigið ágæti og einstakt framlag í þágu þeirra sem minnst mega sín. Hún og flokkur hennar er nú að ljúka öðru kjörtímabili sínu. Markmið flokksins er að útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi, svo allir fái lifað mannsæmandi lífi. Lífsgæði séu ekki einkaréttur útvalinna. Sé tekið mið af ræðum Ingu í áranna rás má helst draga þá ályktun að allt hafi frekar farið á verri veg síðan flokkur hennar kom til sögunnar. Hún búi í öðru samfélagi en því sem náð hefur þeim markmiðum um vöxt sem sett voru á vettvangi um aukna hagsæld fyrir rúmum áratug.
Einmitt þetta gerir umræðurnar um stefnuræðu forsætisráðherra marklitlar, það er að ekki skuli brotið til mergjar það sem í henni segir heldur skautað yfir staðreyndir til að lýsa því sem andstæðingum stjórnarinnar finnst á hverjum tíma. Þetta skal fullyrt hér þar sem ég hef fylgst með flutningi stefnuræðu síðan hann hófst fyrir hálfri öld fyrir utan að hafa lagt til efni í ræðuna árum saman.
Flokkar sem stofnaðir eru í kringum einstaklinga eins og Ingu Sæland annars vegar og Sigmund Davíð Gunnlaugsson hins vegar eru í eigin heimi. Miðflokkurinn lifir á því að tína rúsínurnar sem Sigmundi Davíð og flokksbróður hans, Bergþóri Ólasyni, þykja bestar og lokka aðra til sín með þeim. Nú hafa margir bitið á agnið og þeir færast í aukana og töluðu báðir digurbarkalega í stefnuræðuumræðunum þótt fátt bitastætt sitji eftir af því sem þeir sögðu. Þeir slá um sig eins og Inga en boða engar lausnir.