3.10.2020 10:44

Stjórnarskráin klýfur Samfylkinguna

Verðandi varaformaður Samfylkingarinnar vill færa klukkuna aftur fyrir 6. mars 2013.

Í stefnuræðu sinni nefndi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir réttilega að á því þingi sem nú er hafið, síðasta þingi kjörtímabilsins, væri enn eitt tækifærið til að takast á um breytingar á stjórnarskránni. Sagði ráðherrann að þingmenn fengju „tækifæri þennan vetur til að takast á við ýmis ákvæði til breytinga á stjórnarskrá, m.a. ákvæðið um að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði þjóðareign“.

Hér skal engu slegið föstu um hvenær fyrst var hreyft hugmyndinni um að í stjórnarskránni yrði ákvæði um „þjóðareign“ á auðlindum. Þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra fyrir tæpum 30 árum reifaði hann hugmynd í þessa veru. Þegar nýr mannréttindakafli var settur í stjórnarskrána í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins 1994 var ekkert ákvæði um „þjóðareign“ á auðlindum sett í stjórnarskrána.

Miklar umræður um þetta mál hafa brugðið ljósi á ýmis lögfræðileg og pólitísk álitaefni án þess að niðurstaða sé skýr. Væri fróðlegt að sjá á einum stað allar rit- og greinargerðirnar sem skrifaðar hafa verið um efnið.

Hvar-er-stjornarskrain-althingishus-darkUndir spurningum og áróðri af þessu tagi berst hópur fólks fyrir tillögum sem alþingi hafnaði að ræða frekar vorið 2013 og hafa ekki legið neins staðar til grundvallar í stjórnarskrármálinu nema í huga þessa hóps.

Auðlindaumræðurnar fara eins og flest annað út um víðan völl. Flokkar án skýrra stefnumála leitast við að rangtúlka málið sér í hag. Þar stendur Viðreisn um þessar mundir. „Tillagan sem nú liggur fyrir er merkingarlaus, breytir engu, hún tryggir ekki þjóðareignina,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flokksformaður á þingi 1. október án þess að boða neina lausn.

Stjórnarskrármálið fór út af sporinu í tíð Jóhönnustjórnarinnar 2009-2013. Alþingi ákvað þó fyrir kosningar 2013 að reyna að koma málinu á nýtt spor. Meðal þeirra sem beittu sér fyrir því var Árni Páll Árnason, þáverandi formaður Samfylkingarinnar. Alkunnur klofningur í Samfylkingunni birtist svo í ræðu Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns og frambjóðanda til varaformennsku í flokknum, á þingi 1. október sl. Þá sagði hún:

„Alþingi á einfaldlega að fara að vilja þjóðarinnar sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Annað er fásinna í lýðræðisríki og algjör falleinkunn á störfum Alþingis.“

Málsmeðferðin á þingi eftir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu varð einmitt til þess að þingmenn spörkuðu tillögunni út af vellinum. Þeir áttuðu sig á ógöngunum. Verðandi varaformaður Samfylkingarinnar vill færa klukkuna aftur fyrir 6. mars 2013 þegar Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson fluttu tillögu til þingsályktunar um að rjúfa ferlið frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 meðal annars með þessum rökum:

„Fyrirsjáanlegt er að ekki muni vinnast tími til að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins á slíkum grunni fyrir lok yfirstandandi þings. Þá er mikilvægt að tími gefist til að kynna þjóðinni frumvarpið eins og það lítur út eftir vinnu og breytingar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og tími gefist til umræðu um nýja stjórnarskrá innan þings og utan til að skapa víðtæka sátt um hana.“

Vildu þau að sátt næðist um nýja stjórnarskrá í tilefni af 70 ára afmæli lýðveldisins 2014. Það gekk ekki eftir. Hitt gekk eftir að tillögunum frá stjórnlagaráði var hafnað af þingmönnum. Að halda öðru fram er blekking.