Stjórnarskipti í Berlín
Ný þýsk ríkisstjórn sest að völdum á óvissu- og spennutímum í evrópskum öryggismálum.
Angela Merkel (67 ára) lætur af embætti kanslara Þýskalands í dag (8. desember) eftir að hafa gegnt því í 16 ár. Kristilegir demókratar fengu slæma útreið í sambandsþingskosningunum 26. september 2021 þegar Merkel bauð sig ekki fram til endurkjörs í fyrsta sinn síðan hún var kjörin á þing í desember 1990, skömmu eftir sameiningu Þýskalands.
Helmut Kohl, þáverandi kanslari, gerði Merkel strax að ráðherra í stjórn sinni. Hún tók við forystu í CDU-flokknum af Kohl, var leiðtogi stjórnarandstöðunnar 2002 til 2005 en hefur síðan verið kanslari í samsteypustjórnum, lengst af með stærsta stjórnarandstöðuflokknum, Jafnaðarmannaflokknum (SPD). Þegar Merkel kveður hefur hún setið 10 dögum skemur sem kanslari en Helmut Kohl sem sat í 16 ár og 26 daga í embættinu (1982-1998).
Angela Merkel kveður Olaf Scholz verður kanslari.
Það er jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz (63 ára), fjármálaráðherra í fráfarandi stjórn Merkel, sem tekur við embætti kanslara af henni eftir að þýska þingið hefur lýst trausti á hann í dag. Honum er lýst sem svipaðri manngerð og Merkel, hófsömum, hæglátum en staðföstum. Í kosningabaráttunni lofaði hann að stjórnað yrði áfram í anda stöðugleikans sem einkenndi stjórnartíð Merkel.
Kristilegir fengu í haust verstu útreið frá því að þeir urðu til sem flokkur í núverandi mynd eftir síðari heimsstyrjöldina. Við CDU blasir nú að velja sér nýja forystusveit. Eins og oft gerist við að sterkur leiðtogi yfirgefur sviðið virðist CDU þurfa nokkrar atrennur til að finna réttan takt að nýju.
Merkel kom frá Austur-Þýskalandi kommúnista inn í CDU-flokkinn, ung kona, tákn sameinaðs Þýskalands. Scholz á pólitískar rætur í Hamborg þar sem hann var borgarstjóri 2011 til 2018 en hann var fyrst kjörinn á sambandsþingið í Berlín árið 1998. Hann var í róttæka armi SPD en hefur færst inn á miðjuna og finnst mörgum vinstrisinnuðum flokkssystkinum nóg um daður hans til hægri.
Scholz fer fyrir samsteypustjórn með Græningjum og Frjálsum demókrötum (FDP). Í stjórninni verða 16 ráðherrar, sjö frá SPD, fimm Græningjar og fjórir frá FDP. Annalena Baerbock, græningi, verður utanríkisráðherra og Christian Lindner, FDP, fjármálaráðherra.
Til að hljóta traust á sambandsþinginu þarf stjórnin atkvæði 369 þingmanna af 736 en alls standa 416 þingmenn að baki stjórninni.
Þegar stefnu FDP er lýst af enskumælandi fréttastofum er tekið fram að flokkurinn sé business friendly er þetta talið skilja á milli hans og CDU, það er að hann sé sérstaklega vinveittur atvinnu- og viðskiptalífinu. Það þurfti því að brúa töluvert hugmyndafræðilegt bil á milli flokkanna þriggja þegar þeir sömdu 177 bls. stjórnarsáttmálann. Eitt af því sem þeir ákváðu var að herða aðhaldssama fjármálastjórn ríkisins með því að endurvekja skuldaþakið svonefnda á árinu 2023. Styðst það við ákvæði í þýsku stjórnarskránni.
Ný þýsk ríkisstjórn sest að völdum á óvissu- og spennutímum í evrópskum öryggismálum. Þar skiptir meðal annars miklu hver verður framtíð Nord Stream 2 gasleiðslunnar milli Rússlands og Þýskalands. Snurða hljóp á þann þráð á lokametrunum og nú er gasleiðslan hluti samtala vegna hersafnaðar Rússa við landamæri Úkraínu.