7.4.2021 10:31

Stjórnarskipti á Grænlandi

Bendir allt til þess að í annað sinn frá því að Grænlendingar hlutu heimastjórn 1979 verði IA við stjórnvölinn og Mute B. Egede, formaður flokksins, leiði hana.

Inuit Atagatigiit (IA), vinstri-grænn flokkur á Grænlandi, andvígur námuvinnslu í Kvanefjalli í Narsaq, er sigurverari þingkosninganna þriðjudaginn 6. apríl með tæp 37% atkvæða. Ástralskt fyrirtæki, Greenland Minerals, vildi fá heimild til að vinna sjaldgæf jarðefni úr fjallinu en þau eru til dæmis notuð í farsíma og rafbíla. Við vinnslu þeirra fellur til hliðarefni, úran, og það vill IA ekki sjá og gekk til kosninganna undir þeim merkjum.

Mute_ia_parti_fest_d4s2181Mute B. Egede, formaður IA-flokksins á Grænlandi.

Sigur IA var mikill í Narsaq og bendir allt til þess að í annað sinn frá því að Grænlendingar hlutu heimastjórn 1979 verði IA við stjórnvölinn og Mute B. Egede, formaður flokksins, leiði hana. Flokkurinn hlaut þó ekki hreinan meirihluta á Inatsisartut, þingnu í Nuuk. Forystumenn landstjórnarinnar, Naalakkersuisut, hafa verið:

1979-91: Jonathan Motzfeldt (Siumut)

1991-97: Lars Emil Johansen (Siumut)

1997-02: Jonathan Motzfeldt (Siumut)

2002-09: Hans Enoksen (Siumut) 2009-13: Kuupik Kleist (Inuit Ataqatigiit)

2013-14: Aleqa Hammond (Siumut)

2014 - 21 : Kim Kielsen (Siumut).

Inuit Ataqatigiit fékk alls 9.912 atkvæði, 2.434 fleiri atkvæði en þegar kosið var til þingsins, Inatsisartut, árið 2018. Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut tapaði kosningunum en fékk þó 14 fleiri atkvæði nú en 2018 eða 7.971 atkvæði.

Erik Jensen, formaður Siumut, óskaði IA til hamingju með sigurinn í grænlenska sjónvarpinu, KNR TV, að kvöldi kjördags og sagðist spenntur að sjá hvað stjórnarmyndunarviðræður næstu daga bæru í skauti sér.

Í kappræðum flokksforingja fyrir kjördag sagðist Mute B. Egede að IA gæti starfað í stjórn með öllum sem vildu leggja sig fram um að vernda náttúru og mannlíf. Þótt draga megi þá ályktun af niðurstöðum kosninganna að ekkert verði af námuvinnslu í Kvanefjalli jafngildir það ekki að blátt bann verði lagt við slíkri vinnslu á Grænlandi, þetta verkefni var komið einna lengst á veg en andstaðan við úranið réð úrslitum þar.

Kim Kielsen, sitjandi formanni landstjórnarinnar, var í nóvember 2020 vikið úr formannsætinu í Siumut og Erik Jensen kjörinn í hans stað. Valdabaráttu er þó ekki lokið innan flokksins og styrkti Kielsen stöðu sína í kosningunum. Hann kann því að ýta Jensen til hliðar.

Eitt af helstu kosningaloforðum Siumut var að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá fyrir Grænland sem yrði í raun atkvæðagreiðsla um sjálfstæði landsins. Engin dagsetning var þó nefnd. Úrslit kosninganna 6. apríl eru túlkuð á þann veg að í sjálfu sér vilji kjósendur sjálfstæði en fyrst verði að tryggja efnahagslegan grundvöll þess.

Meiri áhugi var á alþjóðavettvangi á grænlensku kosningunum en oft áður. Endurspeglar hann almennt meiri áhuga stórveldanna á norðurslóðum og viðleitni þeirra til að koma ár sinni þar fyrir borð.

Þegar litið er til málanna sem bar hæst í huga grænlenskra kjósenda voru utanríkis- og öryggismál þar ekki ofarlega á dagskrá þótt þau séu meira rædd á Grænlandi en löngum áður. Í febrúar 2021 birti Háskóli Grænlands niðurstöður rannsókna sem sýndu að „hervæðing norðurslóða (d. Arktis)“ og „hryðjuverkaógn“ voru næst neðst og neðst meðal 11 mála efst í huga kjósenda. Efnahagsmál, atvinnuleysi og lífskjör voru efst á listanum.