30.11.2020 10:04

Stjórnarsamstarf í 3 ár

Við mat á stöðunni eins og hún er núna tæpum tíu mánuðum fyrir kjördag, 25. september 2021, verður ekki annað sagt en markmið stjórnarflokkanna um að skapa stöðugleika fyrir dafnandi þjóðlíf hafi tekist.

Í dag eru þrjú ár liðin frá myndun núverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks, VG og Sjálfstæðisflokks. Þegar Katrín Jakobsdóttir kynnti sáttmála stjórnarinnar hafði þetta pólitíska mynstur aldrei verið reynt áður við stjórn landsins. Við mat á stöðunni eins og hún er núna tæpum tíu mánuðum fyrir kjördag, 25. september 2021, verður ekki annað sagt en markmið stjórnarflokkanna um að skapa stöðugleika fyrir dafnandi þjóðlíf hafi tekist. Ríkisstjórnin hefur styrkt stöðu sína við fordæmalausar aðstæður vegna farsóttarinnar og fari allt sem horfir leiðir hún þjóðina á traustum grunni til nýrrar sóknar eftir að veiran lýtur í lægra haldi fyrir bóluefni sem nú er á næsta leiti.

Stjórnin varð til eftir að tveir flokka hennar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, klofnuðu. Framsóknarflokkurinn í kringum fráfarandi formann flokks síns, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Sjálfstæðisflokkurinn vegna áhuga fyrrverandi formanns og varaformanns á aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í tíð stjórnarinnar hafa forystumenn þessara tveggja klofningsflokka ráðist á gömlu flokkana sína á lúalegan hátt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður og Gunnar Bragi Sveinsson varaformaður Miðflokksins láta nú ranglega eins og það hafi alfarið verið Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem stóð að gerð tollasamnings við ESB um landbúnaðarvörur árið 2015. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, beinir athygli frá misheppnaðri ESB-stefnu flokks síns með inninhaldslitlu tali um stjórn fiskveiða eins og flokksbróðir hennar, Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra til margra ára, eigi engan hlut að þróun þess kerfis.

1156371Ríkisráðsfundur í ágúst 2020 (mynd: hari/mbl.is).

Á næstu mánuðum skerpast átökin milli flokksbrotanna og móðurflokkanna í baráttu um atkvæði.

Í þingflokki VG hefur fækkað um tvo á kjörtímabilinu vegna óánægju klofningsmanna með stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvort þetta utanflokkafólk hugar að frekari stjórnmálaafskiptum er óljóst. Á hinn bóginn liggur fyrir að stofnandi VG fyrir rúmum 20 árum, Steingrímur J. Sigfússon, gefur ekki kost á sér að nýju og Ari Trausti Guðmundsson, kjölfesta í þingflokki VG, ætlar ekki í framboð aftur. Án trausts þessara manna til Katrínar væri annar svipur á VG og ríkisstjórninni.

Samfylking og Píratar róa á svipuð atkvæðamið eins og birtist hvað eftir annað, til dæmis í stjórnarskrármálinu þar sem fulltrúar flokkanna rufu samstöðuna sem Katrín Jakobsdóttir vildi mynda um sérgreindar breytingartillögur. Þá fóru þingmenn Samfylkingarinnar hálfa leið með Pírötum gegn frumvarpinu um lög á verkfall flugvirkja hjá landhelgisgæslunni. Óvild í garð Sjálfstæðisflokksins er helsti samnefnari þessara flokka og vill Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eigna sér forystu þar.

Allir stjórnarflokkarnir hafa orðið að slá af stefnu sinni á ýmsum sviðum eins og jafnan er í samsteypustjórnum. Hættulegast er ef kreddur ná að vega of þungt og svo er við stjórn og ráðstöfun fjár á vegum heilbrigðisráðuneytisins undir pólitískri forystu ráðherra VG.