29.11.2017 14:24

Stjórnarmyndun á lokastigi

Forseti Íslands hafði annan hátt á við stjórnarmyndun núna en fyrir ári. Þá var engu líkara en að hann liti á sig sem meiri geranda í málinu en hann er.

Formsatriði vegna stjórnarmyndunar halda áfram í dag (29. nóvember) þegar viðkomandi stofnanir flokkanna þriggja koma saman, fyrst þingflokkar og síðan flokksráð Sjálfstæðismanna (kl. 16.30), flokksráð VG (kl. 17.00) og miðstjórn Framsóknarflokksins (kl. 20.00).

Verði samþykkt að ganga til myndunar ríkisstjórnarinnar verða ráðherraefni valin og þingflokkar funda á morgun. Stefnt er að ríkisráðsfundi síðdegis á morgun þar sem forseti Íslands ritar undir skipunarbréf ráðherranna. Fyrsti ríkisstjórnarfundur verður svo að líkindum föstudaginn 1. desember.

Hér skal því spáð að flokksstofnanir samþykki stjórnarmyndunina og mál gangi eftir á þann veg sem að ofan segir.

Nú er mánuður síðan kosið var. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við forystumenn stjórnmálaflokkanna mánudaginn 30. október og veitti Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG,  síðan umboð til stjórnarmyndunar fimmtudaginn 2. nóvember.

Forsetinn sagði 2. nóvember að í ljós hefði komið í viðræðum sínum að leiðtogar VG, Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Pírata væru reiðubúnir að vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Katrín fengi því umboð til stjórnarmyndunar og  ætti að vinna að henni. Festa hefði komist á viðræðurnar og þær væru háðar tímamörkum. Forsetinn bjóst við að heyra frá gangi viðræðnanna um og eftir helgi, eins og hann orðaði það á fundi með blaðamönnum á Bessastöðum.

Katrín skilaði umboðinu mánudaginn 6. nóvember. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, taldi of áhættusamt að mynda fjögurra flokka ríkisstjórn með eins atkvæðis meirihluta á þingi.

Eftir að Katrín skilaði umboðinu liðu 22 dagar þar til hún fékk það aftur, það er þriðjudaginn 28. nóvember. Þá skýrði hún forseta Íslands frá því að viðræður hennar, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar hefðu leitt til stjórnarsáttmála og nyti hann stuðnings meirihluta þingmanna. Þar með var sjálfgefið að forseti Íslands veitti henni umboð til stjórnarmyndunar að nýju og í dag, miðvikudaginn 29. nóvember, reynir á málið í stofnunum flokkanna þriggja.

Forseti Íslands hafði annan hátt á við stjórnarmyndun núna en fyrir ári. Þá var engu líkara en að hann liti á sig sem meiri geranda í málinu en hann er. Formlegt vald hans er skýrt en efnislega valdið er hjá stjórnmálamönnunum sem bjóða sig fram til að veita þjóðinni pólitíska forystu sem forseti gerir ekki. Þá gaf forseti út nokkrar skriflegar yfirlýsingar um mat sitt á stöðunni. Nú greip hann ekki til þess ráðs. Hann fór hins vegar að ráðum stjórnmálaforingja þegar þeir hvöttu til þess að þeir fengju svigrúm til að ræða saman án þess að nokkur einn hefði umboð forseta til að leiða viðræðurnar. Þetta hefur reynst happadrjúgt.

Í dag átta helstu trúnaðarmenn flokkanna sig á efni stjórnarsáttmálans. Sagt er að hann sé langur (18 bls.) sem eru ekki endilega meðmæli en efnið skiptir mestu og að um það ríki sæmileg sátt og sameiginlegur skilningur.