25.9.2018 10:24

Stjórnarkreppa í Svíþjóð

Það kemur í hlut forseta þingsins að stofna til viðræðna um nýja ríkisstjórn en Stefan Löfven leiðir starfsstjórn og sitja græningjar með honum áfram í stjórninni.

Stjórnarkreppa er í Svíþjóð. Sænska þingið greiddi að morgni þriðjudags 25. september atkvæði um hvort Stefan Löfven, leiðtogi jafnaðarmanna, skyldi verða áfram forsætisráðherra. Það var fellt með 204 atkvæðum gegn 142 en þrír þingmenn voru fjarverandi.

F7cd29ee7d174e2cca944a9ea5845c1e9b2729ac1ddff88588f327b1ce7ddc66Isabella Lövin, leiðtogi græningja, og Stefan Löfven, leiðtogi jafnaðarmanna. Þau sitja í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn verður mynduð í Svíþjóð.

Jafntefli varð milli fylkinganna á sænska þinginu í kosningunum 9. september. Rauð-grænir: jafnaðarmenn, græningjar og vinstrisinnar fengu 144 þingmenn en Bandalagið: Moderatarna (mið-hægri), Miðflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Kristilegi demókrataflokkurinn fengu 143 þingmenn. Svíþjóðardemókratar fengu 62 þingmenn.

Það kemur í hlut forseta þingsins að stofna til viðræðna um nýja ríkisstjórn en Stefan Löfven leiðir starfsstjórn og sitja græningjar með honum áfram í stjórninni. Þar sem þingforsetinn gegnir mikilvægu hlutverki skipti miklu hver hlyti þá stöðu þegar kosið í hana mánudaginn 24. september. Moderatinn Andreas Norlén var kjörinn þingforseti með atkvæðum flokkanna í Bandalaginu og Svíþjóðardemókrata (SD). Áttu SD-menn von á að fá stuðning Moderatarna við kjör varaforseta en það varð ekki.

Norlén getur gert fjórar tilraunir til að stuðla að myndun ríkisstjórnar sem nýtur meirihluta á þingi. Takist það ekki verður gengið til þingkosninga að nýju.

Moderatarna og kristilegir eru ekki algjörlega fráhverfir einhvers konar samvinnu við SD en miðjumenn og frjálslyndir mega ekki heyra á hana minnst. SD segir að Bandalagið geti þess vegna ekki myndað stjórn, ekki sé unnt að hafa að engu vilja 1,1 milljón kjósenda. Jimmie Åkesson, leiðtogi SD, segir að þingflokkur hans felli hverja þá stjórn sem ekki taki hæfilegt tillit til flokksins.

Stefan Löfven hefur hvatt til þess að við myndun stjórnar fari menn nýjar leiðir. Hann útilokar þó allt samstarf við SD og lýsir flokknum jafnan sem „afsprengi nazista“.

Andstaðan við SD á sænska þinginu minnir á viðhorfið sem var til Framfaraflokksins í Noregi og Danska þjóðarflokksins þar til við upphaf þessa áratugar. Nú á Framfaraflokkurinn ráðherra í ríkisstjórn Noregs og danska þingið lýtur forsæti stofnanda Danska þjóðarflokksins. Á flokksþingi danskra jafnaðarmanna um síðustu helgi var samþykkt stefna í útlendingamálum sem mótast mjög af sama viðhorfi og ræður innan Danska þjóðarflokksins.