24.11.2022 7:53

Stjórnarandstaða í öngstræti

Á þessum tíma hefur sífellt hallað meira á stjórnarandstöðuna og málflutning þingmanna hennar. Auk þeirra hefur fréttastofa ríkisútvarpsins farið verst út úr þessum umræðum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat fyrir svörum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (SEN) alþingis í gær (23. nóvember). Var streymt beint frá fundinum, eins og sýnt var beint frá því viku fyrr þegar Bjarni ræddi sama mál, söluna á 22,5% hlut í Íslandsbanka og skýrslu ríkisendurskoðunar um framkvæmd hennar, í átta og hálfa klukkustund í þingsalnum. Var það sérstök umræða að frumkvæði formanns SEN, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Samfylkingu.

Bjarni Benediktsson sagði útilokað að núverandi ríkisstjórn beitti aftur tilboðsfyrirkomulagi við næstu sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þá sagði hann að seldist ekki meira af Íslandsbanka á næsta ári væri óþarfi að gera því skóna að ríkissjóður hefði ekki burði til að standa við allar skuldbindingar sínar. „Það er langt frá því að forsendur fjárlaga séu í uppnámi. Við erum með 160 milljarða lægri skuldir en talið var. Það er umfram allt eftirstandandi söluverð bankans. Það er fráleitt að tala um að ríkissjóður sé í kröggum. Það er hins vegar jákvætt að selja eftirstandandi hlut í bankanum,“ sagði Bjarni.

Hann vildi ekki taka undir gagnrýni bankasýslunnar á ríkisendurskoðun. Bankasýslan stæði sjálf undir orðum sínum.

1378988Á opnum fundi SEN 23. nóvember: Bjarni Benediktsson og Sigurður H. Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu (mynd mbl/Kristinn Magnússon).

Hörður Ægisson, ritsjóri Innherja á visir.is, birti þriðjudaginn 22. nóvember grein undir fyrirsögninni: Staðreyndir og þvættingur um úttekt Ríkisendurskoðunar.

Hörður segir að ekkert við söluferlið á hlutnum í Íslandsbanka hefði átt að koma neinum á óvart sem hefði haft fyrir því að kynna sér málið. Síst af öllu hefðu þingmenn sem fengu það til umsagnar á sínum tíma í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd átt að undrast ferlið. Þeir séu ekki stikkfrí nú þótt sumir þeirra láti í opinberri umræðu eins og þeir komi af fjöllum þegar rætt er hvernig staðið var að málum við söluna. „Þar er eingöngu við vanþekkingu þeirra sjálfra að sakast, eða þeir eru haldnir alvarlegum athyglisbresti um hvað fór fram á þessum sömu fundum með Bankasýslunni og öðrum sérfræðingum,“ segir Hörður.

Hann segir að markmiðin með sölunni hafi náðst og jafnvelt gott betur. „Selt var meira magn bréfa á hærra verði en gert hafði verið ráð fyrir og frávikið frá dagslokagengi í sölunni – sem samsvaraði um 300 daga veltu með bréf bankans í Kauphöllinni – var með því lægsta sem þekkist í sambærilegum útboðum í skráðum evrópskum bönkum,“ segir í ítarlegri úttekt Harðar sem SEN hlýtur að taka til skoðunar áður en nefndarálit verður samið og lagt fyrir þingið.

Nú eru tæpar tvær vikur frá því að skýrsla ríkisendurskoðunar lak úr höndum þingmanna eftir að hún var afhent SEN sem trúnaðarmál. Á þessum tíma hefur sífellt hallað meira á stjórnarandstöðuna og málflutning þingmanna hennar. Auk þeirra hefur fréttastofa ríkisútvarpsins farið verst út úr þessum umræðum. Að fréttastofan skuli hafa reitt jafnhátt til höggs og hún gerði og stuðlað að upplýsingafölsunum sýnir að þar hallar jafnt og þétt undan fæti.