20.2.2023 9:45

Stigmögnun kjaraátaka

Nú dansar forseti ASÍ sem sagt eftir pípu Sólveigar Önnu og vinnur gegn kjarasamningi sem hann gerði sjálfur og ritað var undir 12. desember 2022.

Það var mikil bjartsýni hjá settum sáttasemjara í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar að vænta þess að samningar tækjust á nokkrum sólarhringum um helgina. SA stendur vörð um kjarasamninga sem náðust 3. desember og 12. desember 2022.

1388813Slagorð á ensku einkenna baráttu samninganefndar Eflingar (mynd: mbl.is).

Fyrir Eflingu vakir að ná betri samningi. Í því skyni hefur verið hönnuð kröfugerð sem er reist á því að það sé dýrara að lifa í Reykjavík en annars staðar á landinu. Af spjöldum með slagorðum á ensku sem samninganefnd Eflingar bregður á loft til stuðnings kröfum sínum má ráða að þar sé barist fyrir erlent fólk sem sækir til höfuðborgarinnar vegna þeirra kjara sem þar bjóðast.

Í kjaraviðræðunum sem miða að því að endurnýja lífskjarasamningana sem runnu út 1. nóvember 2022 hefur SA samið við svo marga launþega innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) að samningarnir skapa fordæmi sem verður ekki ýtt til hliðar og skuldbindur þá sem að samningunum standa.

Meðal þeirra sem skrifað hafa undir samning við SA er Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Undir samning Rafiðnaðarsambandsins var ritað 12. desember 2022 og síðan var hann samþykktur af félagsmönnum.

Markmið samningsins er „að styðja við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum“. Með honum lagður grunnur að stöðugleika og skapaðar forsendur fyrir langtímasamningi sem stefnt er að á næsta ári. Í tilkynningu samningsaðila sagði:

„Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.“

Um tveir mánuðir eru liðnir frá því að Kristján Þórður Snæbjarnarson stóð að gerð kjarasamnings undir þessum formerkjum og hvatti félagsmenn í Rafiðnaðarsambandinu og aðra til að styðja hann. Í því ljósi kemur á óvart að nú skuli Kristján Þórður segja í útvarpsfréttum 20. febrúar sem forseti ASÍ:

„Já, ég styð Eflingu heilshugar í þeirra kjaradeilu og þeim aðgerðum sem þau eru að grípa til.“

Þessi einkennilega tvöfeldni forseta ASÍ bregður enn á ný ljósi á valdabaráttuna sem er háð innan ASÍ. Hún leiddi til þess í ágúst 2022 að Drífa Snædal sagði af sér sem forseti ASÍ og í byrjun október tókst ekki að kjósa forseta í hennar stað heldur settist Kristján Þórður í forsetastólinn til bráðabirgða. Nú dansar forseti ASÍ sem sagt eftir pípu Sólveigar Önnu og vinnur gegn kjarasamningi sem hann gerði sjálfur og ritað var undir 12. desember 2022.

Fyrir hefur legið að Efling semur ekki án þess að beita verkfallsvopninu og nú hafa um 900 af um 21.000 félagsmönnum Eflingar tekið að sér að stöðva sem mest þeir mega og lama þjóðlífið með verkföllum.

Svar SA við þessum skæruhernaði er að leita samþykkis allra félagsmanna sinna við boðun verkbanns.

Á tíma þessarar stigmögnunar situr settur sáttasemjari með tvö úrræði: að boða og tímasetja atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara eða skjóta dómi landsréttar vegna hennar til hæstaréttar.