30.10.2020 13:17

Stefnuskekkja í útlendingamálum

Atvik sem hér verða reglulega vegna hælisleitenda og uppnámið sem þau valda í samfélaginu eru á skjön við hagsmuni allra sem hlut eiga að máli.

Umræður um útlendingamál eru tilfinningaríkar og snúast oft frekar um einstaklinga, börn og fjölskyldur en um hvaða meginstefnu beri að fylgja. Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og fulltrúi utanríkisráðuneytisins í flóttamannanefnd, birti grein um málefnið í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 29. október og sagði meðal annars:

„Undanfarin ár hefur umsóknum um alþjóðlega vernd, hælisumsóknum, fjölgað verulega hérlendis og hælisveitingum sömuleiðis. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin, eins og við gerum svo gjarna, þá sækja hlutfallslega flestir um hæli á Íslandi og jafnframt fá hlutfallslega langflestir hæli hér. Sama er ekki uppi á teningnum hvað varðar móttöku kvótaflóttafólks. Þótt við höfum vissulega tekið á móti aðeins fleira kvótaflóttafólki undanfarin ár fer langstærstur hluti þeirra fjármuna sem varið er í þennan málaflokk í hæliskerfið. Þannig fékk 531 einstaklingur alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra, en 867 einstaklingar sóttu hér um sama ár. Til samanburðar má nefna að ríkisstjórnin samþykkti að taka á móti 85 kvóta-flóttamönnum árið 2020.

Það má því með sanni segja að meginreglan sem gildir hérlendis um tækifæri til betra lífs sé fyrstur kemur, fyrstur fær. Kerfið okkar hvetur fólk til þess að koma hingað til lands á eigin vegum og sækja um hæli. Athyglisvert er því að skoða upprunalönd þessa hóps. Í fyrra sóttu meðal annars um 100 einstaklingar frá Lettlandi, Litháen, Bretlandi, Ástralíu, Brasilíu, Bandaríkjunum, Rúmeníu, Albaníu, Georgíu og Indlandi um alþjóðlega vernd hér á landi.“

Það er ekki nein tilviljun sem ræður þegar ríki móta reglur sínar á þann veg að þau þrengi að komu þeirra sem eru óboðnir aðkomumenn í löndum þeirra, ef svo má að orði komast, í þágu hinna sem eru boðnir innan alþjóðakerfisins sem gildir um flóttafólk. Þanþoli grunnstoða eru sett takmörk sett og opið streymi skattfjár til málaflokka er hvergi þolað.

3a89c94d3513b40ca55086835a6154e797019561Diljá Mist segir að aldrei hafi fleiri verið á flótta í heiminum en um þessar mundir eða um 80 milljónir manna og þeim fari fjölgandi. Gagnvart þessum vanda hafi íslensk stjórnvöld stefnt í allt aðra átt en gert er annars staðar á Norðurlöndum. Þar er ríkara tillit en hér tekið til krafna þeirra sem berjast fyrir hag flóttamanna að alþjóðalögum í stað þess að þeir hafi sitt fram sem krefjast hælisverndar án þess að falla undir alþjóðasamninga um flóttamenn.

Í greininni minnir Dilja Mist á að í nýlegri stefnuræðu sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og leiðtogi jafnaðarmanna, að útlendingapólitík fortíðarinnar væri einfaldlega verið röng og hæliskerfið ríkja Evrópu væri að liðast í sundur. „Það er forgangsmál að draga úr straumi hælisleitenda til Danmerkur, torvelda starfsemi þeirra sem hagnast á mansali og uppræta skipulagða glæpastarfsemi,“ segir í greininni.

Atvik sem hér verða reglulega vegna hælisleitenda og uppnámið sem þau valda í samfélaginu eru á skjön við hagsmuni allra sem hlut eiga að máli. Stefnan hér er stórgölluð að standa gegn breytingum á henni jafngildir varðstöðu um misrétti og ójöfnuð.