26.11.2024 9:32

Stefna mörkuð um landnotkun

Ætlunin er að flokka land í fjóra flokka í samræmi við útgefnar leiðbeiningar um flokkun á landbúnaðarlandi. Megináhersla verður lögð á land sem skilgreint er í flokkana mjög gott ræktunarland og gott ræktunarland. 

Sumir áhugamenn um valdsvið starfsstjórna eru þeirrar skoðunar að þeir sem í þeim sitja hafi ekki umboð til að taka ákvarðanir sem móta framtíðina. Þar eru hins vegar fyrir hendi mörg fordæmi sem sýna að þessi skoðun heldur ekki vatni. Í starfsstjórnum hafa ráðherrar tekið margar stefnumótandi ákvarðanir sem hafa stjórnlaga- og stjórnsýslulegt gildi.

Ein slík ákvörðun bættist í safnið 20. nóvember 2024 þegar Bjarni Benediktsson matvælaráðherra samþykkti að ráðist skyldi í kortlagningu á gæðum ræktunarlands.

IMG_1192

Í tilkynningu matvælaráðuneytisins sagði að markmið kortlagningarinnar væri að gæði ræktunarlands yrðu kortlögð út frá bestu fáanlegu gögnum og nýttist þannig við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnotkun til að tryggja mætti m.a. fæðuöryggi. Verkefnið væri í samræmi við landsskipulagsstefnu 2024-2038 sem samþykkt var á alþingi vorið 2024, einnig áherslur landbúnaðarstefnu til ársins 2040 sem samþykkt var á alþingi í júní 2023.

Ætlunin er að flokka land í fjóra flokka í samræmi við útgefnar leiðbeiningar um flokkun á landbúnaðarlandi. Megináhersla verður lögð á land sem skilgreint er í flokkana mjög gott ræktunarland og gott ræktunarland en land sem fellur í þessa flokka er talið kunna að verða undirstaða fæðuöryggis til lengri tíma litið. Fyrirliggjandi gögn verða nýtt eins og kostur er í samræmi við útgefnar leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands. Þá segir í tilkynningunni:

„Afurð verkefnisins verður landupplýsingagrunnur sem sveitarfélög geta nýtt við flokkun á landbúnaðarlandi og stefnumörkun um nýtingu í skipulagsáætlunum í samræmi við lög.“

Áætlað hefur verið að einungis um 6% Íslands sé gott ræktunarland en lítill hluti þess er nú þegar ræktaður eða um 1,6% af landinu öllu.

Nýlega bárust fréttir frá Rangárþingi eystra um ólíkar skoðanir á því hvort heimila ætti hótelrekstur undir Eyjafjöllum þar sem talið er mjög gott landbúnaðarland. Ætlar sveitarstjórn að stíga varlega til jarðar. Kortlagning og samræmd túlkun á reglum um varðveislu ræktunarlands auðvelda töku ákvarðana um slík mál og eru til leiðbeiningar fyrir þá sem fjárfesta í landi.

Sjálfstæði sveitarfélaga í skipulagsmálum er lögfest og ekki er við því hróflað með reglum og leiðbeiningum um landnotkun. Á hinn bóginn styrkir það framkvæmd stefnu um skynsamlega og ábyrga landnotkun að til verði miðlæg söfnun, úrvinnsla og miðlun allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir flokkun lands, enda varða upplýsingarnar fæðuöryggi til framtíðar. Rök fyrir miðlægri söfnun upplýsinga og kortlagningu ræktunarlands eru einnig þau að í þessum efnum hafa skapast vandamál vegna þess að mismunandi stjórnvöld stofna til mismunandi verkefna við að kortleggja landið. Sjálfstæð landflokkunarverkefni eftir stofnunum skapa hættu á ólíkum niðurstöðum og við það aukast líkur á að ákvarðanir sveitarstjórna og ríkisins verði ófyrirsjáanlegar og ósamrýmdar.

Landupplýsingagrunnurinn verður í sameiginlegri umsjón Lands og skógar og Skipulagsstofnunar þegar kortlagningu er lokið.