Stefna Kristrúnar og borgin
Breytingarnar sem Kristrún talaði um snúast um að leggja ofuráherslu á húsnæðismál, heilbrigðismál, samgöngur, góða atvinnu og kjör fólks.
Fréttamaður Stöðvar 2 sem ræddi við nýkjörinn formann Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur, eftir landsfund flokksins laugardaginn 29. október segir nýja formanninn ekki útiloka stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Þegar samtalið á Stöð 2 er lesið má vissulega draga þessa ályktun af því en Kristrún vill hafa vaðið fyrir neðan sig og lætur eins og grundvallarmunur séu á afstöðu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar kemur að „fjármögnun“ velferðarmála. Það þurfi „nýtt blóð í fjármálaráðuneytið“ . Samfylkingin geti „ekki eftirlátið Sjálfstæðisflokknum að stýra fjármálaráðuneytinu“. Hann hafi þar með „ægivald yfir öllum velferðarmálum þjóðarinnar“.
Af þessum orðum má ráða að nýr formaður
Samfylkingarinnar sé fús að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn fái hún
embætti fjármálaráðherra og geti stóraukið útgjöld til velferðarmála. Það er ímyndun
að það sé einfaldlega í höndum fjármálaráðherra að taka slíkar ákvarðanir, hitt
er kannski líka ímyndun að nýjum flokksformanni takist að afmá aðskilnaðarstefnuna
innan Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Samfylkingarinnar (mynd:mbl.is).
Hvað til dæmis með borgarstjórn Reykjavíkur? Þar eru fjármál og stuðningur við skóla- og velferðarmál í molum þrátt fyrir að aðskilnaðarstefnunni gagnvart sjálfstæðismönnum hafi verið fylgt markvisst árum saman. Samfylkingin hefur þar úrslitavöld í fjármálum undir stjórn borgarstjóra úr hennar röðum.
Endurreisn velferðarkerfisins er að mati Kristrúnar „grundvallarmál, sem vinnst ekki með dægurþrasi í stjórnmálum. Fólk þyrstir í forystu í stjórnmálum sem treystir sér í þetta verkefni. Þessu kalli ber okkur að svara,“ sagði hún.
Breytingarnar sem Kristrún talaði um snúast um að leggja ofuráherslu á húsnæðismál, heilbrigðismál, samgöngur, góða atvinnu og kjör fólks.
Samfylkingin hefur farið með yfirstjórn húsnæðis- og samgöngumála í höfuðborginni í aldarfjórðung. Hver er árangurinn? Afleiðing stefnunnar um þéttingu byggðar birtist æ víðar sem vandamál, til dæmis á þann veg að grunnvirki að baki frumþjónustu sveitarfélagsins standast ekki álagið.
Nú birtast fréttir um að þúsundir fermetra af atvinnuhúsnæði standi auðir á jarðhæðum í nýju hverfi á Hlíðarenda í Reykjavík. Þeir sem kannað hafa kosti þess að hefja þar starfsemi hverfa frá áformunum vegna bílastæðaskorts fyrir viðskiptavini. Þarna birtist skipulagsstefna Samfylkingarinnar.
Í stefnuræðu sinni lét Kristrún þess getið að forveri hennar, Logi Einarsson, hefði á sínum tíma verið kallaður „útfararstjóri flokksins“. Hún sagði við Loga. „Þú breyttir útförinni í upprisu og endurnýjun.“
Stóra spurningin er hvernig Kristrúnu tekst í verki að hrinda því í framkvæmd sem hún boðaði í ræðunni. Beitir hún sér fyrir breytingu á stefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík? Í þágu lægra húsnæðisverðs, betri samgangna, fjölgunar bílastæða?
Hún þarf ekki að bíða eftir að komast í fjármálaráðuneytið til að láta verkin tala. Verkefnið bíður hennar strax sem þriðja þingmanns í Reykjavík suður.