9.6.2022 10:35

Starfsskilyrði landbúnaðar

Í ljósi þess sem almennt gildir í alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarvörur er rangt og ósanngjarnt að túlka alþjóðlegar skuldbindingar íslenskum bændum og framleiðendum í óhag.

Eitt af því sem kom á óvart þegar unnið var að athugunum sem leiddu til þess að landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland! var gefin út síðsumars 2021 var að innleiðing á ýmsum EES-gerðum sem snúa að landbúnaði er gölluð á þann veg að ekki er af alúð gætt þess sjónarmiðs sem einkennt hefur ESB-regluverkið um landbúnaðarmál frá upphafi, að landbúnaðurinn skuli njóta vafans til dæmis við túlkun á samkeppnisreglum. ESB lítur ekki á samkeppni í landbúnaði sem markmið í sjálfu sér heldur tæki til að ná markmiðum landbúnaðarstefnunnar. Lögð er áhersla á mikilvægi samtaka framleiðenda enda er sterk evrópsk hefð fyrir samtökum bænda til að ná þessum markmiðum. Leggur framkvæmdastjórn ESB mikla áherslu á stækkun rekstrareininga.

Í ljósi þess sem almennt gildir í alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarvörur er rangt og ósanngjarnt að túlka alþjóðlegar skuldbindingar íslenskum bændum og framleiðendum í óhag. Á það bæði við um stórframleiðendur og smáframleiðendur.

Shutterstock_772071496-800x450Efla verður nýsköpun í landbúnaði í þágu fæðuöryggis.

Samhliða því sem á þetta er bent í Ræktum Ísland! er vakin athygli á að íslenskir framleiðendur telja að regluverk vegna starfsemi þeirra sé strangara hér en í öðrum aðildarríkjum EES. Reglur EES-samningsins séu oft innleiddar í íslensk lög og fylgt eftir í framkvæmd á meira íþyngjandi hátt en þær gefi tilefni til.

Viðhorfin sem þarna eru kynnt búa greinilega að baki því að nú hafa verið stofnuð Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) sem heyra undir Samtök atvinnulífsins (SA).

„Mikilvægasta verkefni samtakanna í upphafi er að jafna þessi starfsskilyrði,“ segir Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, fyrsti formaður SAFL, í Morgunblaðinu í dag (9. júní).

Á þriðja tug fyrirtækja eru í samtökunum. Auk hefðbundinna afurðasölufyrirtækja bænda eiga ýmis einkafyrirtæki aðild, til dæmis framleiðendur svína- og kjúklingakjöts, Sölufélag garðyrkjumanna og fóðurfyrirtæki.

Nú ber fæðuöryggi hátt þegar Vladimir Pútin heftir af hrottaskap sínum útflutning á korni og matvælum frá Úkraínu í von um að geta styrkt eigin stöðu með hungurvofuna í liði með sér.

Í Ræktum Ísland! er að finna útdrátt úr umsögn samkeppniseftirlitsins um efni stefnuskjalsins. Þar segir meðal annars að virk samkeppni styðji við fæðuöryggi og mælt er með því að stjórnvöld ráðist í ítarlega greiningu á samspili tollverndar og samkeppni og áhrifum þessa á neytendur og bændur. Skapa þurfi bændum aukin tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði. Til greina komi að staða bænda sé efld með undanþágu frá samkeppnislögum þeim til handa. Til að skilyrði skapist til þess þurfi bændur að hafa meira forræði á framleiðslu sinni.

Þarna eru mikilvægar ábendingar um mikilvæg skilyrði til að tryggja íslenskum bændum sambærilega stöðu og bændur í nágranna- og samkeppnislöndum njóta. Við núverandi aðstæður verður að líta til allra átta og á það sem í vændum er frekar en það sem var. Nýju samtökin, SAFL, boða að það verði gert.