5.3.2025 9:44

Sprungin hagræðingarblaðra

Í lok janúar var blásið upp að um 10.000 hugmyndir hefðu borist. Nú þegar afstaða til innan við 0,6% af þessum hugmyndum birtist í tillögum starfshópsins er ljóst að allur vindur er úr blöðrunni.

Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri skilaði tillögum sínum til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og Daða Más Kristóferssonar fjármála- og efnahagsráðherra þriðjudaginn 4. mars.

Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins segir að hópurinn hafi unnið úr nær fjögur þúsund umsögnum frá almenningi ásamt erindum frá forstöðumönnum ríkisstofnana og ráðuneytum. Hópurinn leggi fram tæplega 60 „metnaðarfullar“ tillögur til hagræðingar. Nú muni vinnuhópur forsætis- og fjármálaráðuneytis sem starfaði með hagræðingarhópnum vinna áfram að framkvæmd tillagna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og að ráðuneyti taki mið af vinnunni við gerð fjármálaáætlunar 2026-2030.

Í tilkynningu ráðuneytisins er hlekkur á skjal frá starfshópnum. Ekkert kemur á óvart við lestur þess hafi menn á annað borð haft áhuga á því málefni sem um er að ræða.

Sú aðferð að leita til almennings á samráðsgátt stjórnvalda eftir hugmyndum um aukna hagsýni og hagræðingu í opinberum rekstri var sniðug bæði til að kynna samráðsgáttina og til að virkja almenning með aðild að einu stefnumáli ríkisstjórnarinnar, stefnumáli sem forsætisráðherra gaf sérstakt vægi í áramótaávarpi sínu.

Þegar skilafresti hugmynda lauk 23. janúar sl. var miklu meira loft í blöðrunni vegna þessa framtaks en reyndist vera þegar starfshópurinn skilaði tillögum sínum. Í lok janúar var blásið upp að um 10.000 hugmyndir hefðu borist. Nú þegar afstaða til innan við 0,6% af þessum hugmyndum birtist í tillögum starfshópsins er ljóst að allur vindur er úr blöðrunni. Flest bendir til að hún hafi einfaldlega sprungið í andlit forsætisráðherra.

DSC02132

Björn Ingi Victorsson, formaður hagræðingarhópsins, afhendir Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, tillögurnar 4. mars 2025 (mynd: vefsíða stjórnarráðsins).

Kristrún Frostadóttir gekk ekki í ábyrgð fyrir neina af tillögum starfshópsins sem talið er að kunni að leiða til um 70 milljarða sparnaðar fram til ársins 2030. Árleg útgjöld ríkissjóðs eru nú um 1.500 milljarðar. Miðað við breytingar á fjárlagafrumvarpi í meðförum alþingis ár hvert eru 70 milljarðar á þessu árabili til 2030 hreinir smáaurar.

Það vekur athygli að margar af tillögum starfshópsins hafa ekki verið kostnaðarmetnar og kunna þær því að leiða til aukins kostnaðar en ekki lækkunar hans.

Athyglisverðast er að í tillögum hópsins ganga aftur hugmyndir sem sumar hafa verið á döfinni árum saman án þess að hafa verið hrundið í framkvæmd. Ef til vill hefur hópurinn lagt á sig einhverja vinnu við að greina á hverju framkvæmd hugmyndanna hefur strandað til þessa. Sé svo er þess ekki getið en leiðin fram hjá alls konar skerjum innan kerfisins er oft hættuleg og það er undir öflugum skipstjóra komið hvernig ferðinni miðar.

Því miður virðast ráðherrarnir telja hlutverk sitt núna felast í almannatengslum á undirbúningsstigi en ekki ábyrgri forystu fyrir framkvæmd mótaðra tillagna. Þá forðaðist starfshópurinn að taka afstöðu til málefna sem hann taldi „pólitísk“, það er að segja flokkspólitísk. Ekkert er minnst á RÚV eða ÁTVR í skjali starfshópsins sem sýnir að það mótast af hræðslu við það sem umdeilt er.