22.12.2024 11:02

Sprengiefni í stjórnarsáttmála

Allt bendir til að í raun hafi verið illa staðið að gerð sáttmálans og þess í stað treyst á stemninguna sem skapaðist milli kvennanna þriggja sem leiða stjórnarflokkana. Slík stemning súrnar fljótt.

Nýrri ríkisstjórn undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur er óskað velfarnaðar. Vonandi heldur þjóðlífið áfram að blómstra og dafna undir forsjá stjórnarinnar. Hér skal viðurkennt að slökkt var á Silfri sjónvarpsins að kvöldi laugardagsins 21. desember þegar stjórnin var mynduð. Fyrsta spurningin snerist um hvað stjórnin ætti að heita. Var hún í samræmi við ófagleg vinnubrögð fréttastofunnar vegna stjórnarskiptanna þennan dag. Samtal fréttamanna á Rás 2 eftir kynningu stjórnarsáttmálans klukkan 13.00 í Hafnarfirði var þó líklega verst.

Stefna stjórnarinnar skiptir meira máli en heiti hennar. Í stjórnarsáttmálanum er meiri áhersla lögð á útgjöld en tekjuöflun. Fækkun ráðuneyta um eitt eða boðuð hagræðing snýst um smáaura. Atvinnustarfsemi situr á hakanum en þeim mun meira er um útfærslur á opinberum millifærslukerfum. Þar sést handbragð starfsmanna ASÍ. Þeir hafa verið fengnir til að fá þingmenn Flokks fólksins til að falla frá meginkröfum sínum.

Það sannaðist við afgreiðslu stjórnarsáttmálans í stjórnarflokkunum að Flokkur fólksins styðst ekki við nein flokksfélög eða fulltrúakerfi kjósenda sinna. Inga Sæland ræður því sem hún vill og á eftir að sýna þá takta sem félagsmála- og húsnæðisráðherra. Það verður ekki friður um hvernig hún stendur að ráðstöfun opinbers fjár í samræmi við millifærslutexta stjórnarsáttmálans.

7ab06ea3-1769-428b-ab53-d978830cec90Ráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur á ríkisráðsfundi 21. desember 2024 (mynd af vef stjórnarráðsins).

Stjórnarsáttmálinn er í 23 liðum og eru þeir flestir opnir í báða enda. Má þar til dæmis nefna málefni grunnskólans sem verða undir pólitískri stjórn grunnskólakennarans Ásthildar Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra úr Flokki fólksins.

Skilið er við málefni grunnskólans í ólestri af hálfu Ásmundar Einars Daðasonar. Umboðsmaður barna gagnrýndi sumarið 2024 mennta- og barnamálaráðuneytið vegna þess hve dregist hefur að semja reglur um framkvæmd námsmats. Nú um áramótin ganga að nýju í gildi reglur um slíkt mat sem ætlunin hefur verið að breyta frá árinu 2018 án þess að ráðherrar málaflokksins hafi ráðið við það.

Er undarlegt að við gerð sáttmála nýrrar ríkisstjórnar hafi flokkarnir sem að henni standa ekki samið um hvernig tafarlaust skuli staðið að lausn þessa vanda. Allt bendir til að í raun hafi verið illa staðið að gerð sáttmálans og þess í stað treyst á stemninguna sem skapaðist milli kvennanna þriggja sem leiða stjórnarflokkana. Slík stemning súrnar fljótt.

Ákveðið er í sáttmálanum að leggja auðlindagjald „fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands“ og verða lögð komugjöld á ferðamenn þar til gjaldtakan hefst. Talsmaður ferðaþjónustunnar gefur til kynna að greinin sætti sig við þetta af því að gjöldin komi í staðinn fyrir hækkun virðisaukaskatts.

Í sáttmálanum er að finna ákvæði sem minnir á það sem samþykkt var á landsfundi VG í október, að flokkurinn væri á móti stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum en ætlaði ekki að segja frá því fyrr en vorið 2025. Leiddi þetta til stjórnarslita og útþurrkunar VG.

Viðreisn fær inn í sáttmálann ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu „um framhald viðræðna um aðild Íslands“ að ESB eigi síðar en árið 2027. Orðalagið er rangt. Viðræðunum var slitið. Verði knúið á um þetta ákvæði springur stjórnin og Viðreisn verður að engu.